Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er látinn. Hann var 71 árs að aldri þegar hann lést á föstudagskvöld. Hann hafði lengi glímt við krabbamein.
Börn Péturs greina frá andláti hans á Facebook-síðu hans. Þar kemur fram að hann hafi látist úr krabbameini á heimili sínu í faðmi fjölskyldunnar. Útför hans mun fara fram í kyrrþey að hans ósk. „Hann tók veikindum sínum af æðruleysi og í samræmi við lífsviðhorf sín kvartaði hann aldrei heldur hélt áfram að vera virkur þar til alveg undir lokin,“ segja börn hans.
Pétur var þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 1995 og þar til hann lést.
Pétur lauk stúdentsprófi frá MR 1965, diplom-próf í eðlisfræði, stærðfræði og tölvufræði við Kölnarháskóla 1968, diplom-próf í hagnýtri stærðfræði, líkindafræði, tölfræði, tryggingastærðfræði og alþýðutryggingum við Kölnarháskóla 1971. Hann lauk svo doktorsprófi við sama háskóla 1973.
Hann starfaði víða áður en hann varð þingmaður. Hann starfaði sem sérfræðingur hjá Raunvísindastofnun HÍ og sem kennari við sama skóla. Hann var forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna og starfaði viðtryggingafræðilega ráðgjöf fyrir lífeyrissjóði og einstaklinga. Þá var hann framkvæmdastjóri Kaupþings frá 1984 til 1991, kennari við Verslunarskóla Íslands og starfandi stjórnarformaður Tölvusamskipta áður en hann settist á þing árið 1995.
Pétur var alla tíð þekktur sem hugsjónamaður og gekk oft gegn flokkslínum innan flokksins.
Pétur lætur eftir sig sex börn, Davíð, Dagnýju, Stefán, Stellu Maríu, Baldur og Eydísi.
Ritstjórn Kjarnans sendir fjölskyldu Péturs samúðarkveðjur.