Sjö stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á Alþingi skiluðu árituðum ársreikningi sínum til Ríkisendurskoðunar áður en lögbundinn frestur til þess rann út 1. nóvember síðastliðinn.
Sá eini sem skilaði ekki á réttum tíma voru Píratar, en ársreikningur þeirra barst ekki fyrr en 23. nóvember. Í svari Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisendurskoðanda við fyrirspurn Kjarnans segir að athugasemdir hafa verið gerðar af Ríkisendurskoðun við reikninginn og að hlutaðeigandi stjórnmálasamtök, sem eru Píratar, hafi fengið frest til að bæta úr annmörkunum. „Að því loknu að því skilyrði uppfylltu að bætt hafi verið að fullu úr annmörkum verða upplýsingarnar birtar á vef Ríkisendurskoðunar.“
Reikningar allra annarra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á þingi hafa verið birtir á heimasíðu Ríkisendurskoðunar. Kjarninn hefur þegar birt umfjöllun um þá alla.
Eyddu nánast öllu í rekstur
Á árinu 2019 högnuðust Píratar um 2,6 milljónir króna. Tekjur flokksins, sem eru nær einvörðungu úr opinberum sjóðum, voru 86 milljónir króna. Mest munaði um framlög úr ríkissjóði til flokksins sem námu tæpum 83 milljónum króna.
Rekstrarkostnaður Pírata var 82 milljónir króna. Þar af kostaði rekstur aðalskrifstofu 65 milljónir króna og rekstur þingflokks Pírata 15,1 milljón króna. Það þýðir að 95,5 prósent af tekjum Pírata fór í rekstrarkostnað á síðasta ári.
Flokkurinn skar sig úr í stjórnmálaflokkaflórunni með því að eyða svona stórum hluta tekna sinna í rekstur. Hinir lögðu flestir tugi milljóna króna til hliðar á árinu 2019. Sömu sögu er að segja um síðasta ár, og kosningasjóðir þeirra fyrir þingkosningarnar sem fóru fram í september því digrir.