Píratar mælast með mest fylgi allra flokka í fimm af sex kjördæmum landsins. Aðeins í Norðvesturkjördæmi er annar flokkur stærsti flokkurinn, en það er Framsóknarflokkurinn. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.
Píratar mælast með 42 prósent fylgi í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og fengju því 15 af 29 kjördæmakjörnum þingmönnum væri gengið til kosninga í dag. Flokkurinn er með 37 prósenta fylgi í Suðurkjördæmi, 35 prósent í Suðvesturkjördæmi og 29 prósent í Norðausturkjördæmi. Í Norðvesturkjördæmi mælast Píratar með 20 prósent, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, en þar er það Framsóknarflokkurinn sem er stærstur, með 28 prósenta fylgi.
Framsóknarflokkurinn er með um 20 prósenta fylgi í Norðausturkjördæmi, kjördæmi formanns flokksins og forsætisráðherra. Fylgið er hins vegar í kringum fimm til sjö prósent á höfuðborgarsvæðinu.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með tæp 26 prósent í Suðvesturkjördæmi en annars staðar er fylgið í kringum 20 prósent.
Samfylkingin er með um ellefu prósenta fylgi í Reykjavíkurkjördæmi norður, Suðvesturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi. Minnsti stuðningurinn við flokkinn er 3,3 prósent í Norðausturkjördæmi.
VG eru með 20 prósenta fylgi í Norðausturkjördæmi og fjórtán prósent í Reykjavík. Flokkurinn er í kringum tíu prósent í Suðvestur- og Norðvesturkjördæmum en ekki nema 3,4 prósent í Suðurkjördæmi.
Björt Framtíð er með mestan stuðning, um sex prósent, í Reykjavík, en víðast mælist flokkurinn í kringum 3-4 prósent.