Þingflokkur Pírata hefur lagt fram frumvarp sem felur í sér að lögaðilar megi ekki styrkja stjórnmálasamtök eða stjórnmálafólk með beinum hætti. Í núgildandi lögum mega lögaðilar gefa 550 þúsund krónur á ári til stjórnmálasamtaka og 400 þúsund krónur á ári til einstakra frambjóðenda.
Sömuleiðis vill þingflokkurinn að allir afslættir lögaðila af vörum og þjónustu og veittir eru af markaðsverði verði sérgreindir í reikningum. „Lögaðilar sem inna af hendi einhvers konar framlög til stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda, í formi afslátta eða hvers konar efnislegra gæða, skulu sérgreina heildarfjárhæð slíkra framlaga í ársreikningum sínum og gera Ríkisendurskoðun sérstaklega grein fyrir þeim afslætti. Telja skal saman framlög tengdra aðila. Afslættir mega ekki vera umfram það sem öðrum viðskiptavinum stendur almennt til boða.“
Sem stendur mega stjórnmálasamtök taka við framlögum upp á 550 þúsund krónur frá einstaklingum og einstakir frambjóðendur mega taka við 400 þúsund króna framlögum á ári. Píratar vilja halda þessum krónutölum framlaga frá einstaklingum og gera stjórnmálafélögum innan samstæðu stjórnmálasamtaka einnig heimilt að taka á móti framlögum upp á 100 þúsund krónur frá einstaklingum umfram þessa fjárhæð. Þá vilja þeir að stofnframlög frá einstaklingum sem veitt eru í beinum tengslum við stofnun stjórnmálasamtaka megi að hámarki verða 1,1 milljón króna.
Hætta geti skapast á spillingu
Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu segir að núverandi löggjöf stuðli að ójafnræði borgaranna þegar komi að styrkjum til stjórnmálasamtaka. Tilgangur með hámarksfjárhæðum sé sá að enginn einn aðili geti í krafti fjárhagsstöðu sinnar styrkt stjórnmálasamtök um það háar fjárhæðir að hætta skapist á spillingu. „Hætt er við að stjórnmálasamtök eða stjórnmálafólk freistist til að gæta frekar hagsmuna styrktaraðila umfram hagsmuni almennings þegar svo stendur á. Því er mikilvægt að borgararnir njóti jafnræðis þegar kemur að styrkveitingum.“
Í greinargerðinni er einnig bent á að fyrirtæki geti styrkt stjórnmálasamtök óbeint. „Það er ekki óalgengt að fyrirtæki gefi jafnvel þjónustu sína eða veiti meiri afslátt en gengur og gerist gagnvart öðrum viðskiptavinum. Því er nauðsynlegt að það sé greint frá því á gagnsæjan hátt til þess að aðrir viðskiptavinir geti notið sömu kjara.“
Sjálfstæðisflokkurinn fær hæstu styrkina frá lögaðilum
Verði frumvarpið samþykkt myndi það bitna mest á Sjálfstæðisflokknum, sem fékk alls 16,7 milljónir króna í fjárframlög frá lögaðilum á árinu 2020, sem er síðasti birti ársreikningum flokksins. Á meðal þeirra lögaðila sem greiddu Sjálfstæðisflokknum hámarksstyrk upp á 550 þúsund krónur á því ári voru sjávarútvegsfyrirtæki mest áberandi.
Þau framlög voru þó lítill hluti af rekstrartekjum Sjálfstæðisflokksins á því ári, þegar þær voru 328,4 milljónir króna. Langstærstur hluti tekna þess árs, 195,5 milljónir króna, komu úr ríkissjóði. Sveitarfélög greiddu flokknum svo 20 milljónir króna í framlög til viðbótar þannig að alls komu tvær af hverjum þremur krónum sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði í tekjur í fyrra úr opinberum sjóðum.
Til viðbótar hafði flokkurinn 36,3 milljónir króna í tekjur af fjárframlögum og félagsgjöldum einstaklinga.
Enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi kemst nálægt því að vera með jafn mikil fjárhagsleg umsvif og Sjálfstæðisflokkurinn.
Flokkar settir á fjárlög
Framlög til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði voru hækkuð verulega í byrjun síðasta kjörtímabils. Tillaga sex flokka sem sæti eiga á Alþingi um að hækka framlag ríkisins til stjórnmálaflokka á árinu 2018 um 127 prósent var samþykkt í fjárlögum sem voru afgreidd áður en þingi var slitið í lok desember 2017. Framlög til stjórnmálaflokka á því ári áttu að vera 286 milljónir króna en urðu 648 milljónir króna. Framlögin hækkuðu síðan jafnt og þétt og voru 728,2 milljónir króna síðustu þrjú ár.
Til viðbótar við þær greiðslur er kostnaður vegna starfsmanna þingflokka greiddur af Alþingi.
Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi kemur fram að það eigi að lækka framlag til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði á árinu 2023, en nú eru þiggjendurnir níu þar sem Sósíalistaflokkur Íslands uppfyllir einnig skilyrði til að þiggja styrkina.
Ekki er um stórkostlega breytingu að ræða. Framlagið verður lækkað úr 728,2 í 692,2 milljónir króna á ári, eða um 36 milljónir króna.
Fjárhagsstaða flokka hefur kúvenst á fáum árum
Þorri tekna allra flokka sem eiga sæti á þingi á árinu 2020 voru framlög úr opinberum sjóðum. Í tilfelli Flokks fólksins og Pírata komu 98 prósent tekna úr ríkissjóði eða frá Alþingi eða sveitarfélögum, í tilfelli Miðflokksins var hlutfall tekna úr opinberum sjóðum tæplega 94 prósent, hjá Vinstri grænum 92 prósent og rúmlega 91 prósent tekna Viðreisnar komu úr opinberum sjóðum.
Framsóknarflokkurinn sótti 87 prósent tekna sinna á árinu 2020 í opinbera sjóði, Samfylkingin 75 prósent og Sjálfstæðisflokkurinn 66 prósent.
Þessi framlög hafa kúvent fjárhagsstöðu flokkanna átta. Eigið fé þeirra jókst samtals um 748,5 milljarða króna frá árslokum 2017 og til loka árs 2020.