Notkun áþreifanlegra greiðslukorta á Íslandi hefur dregist nokkuð saman á síðustu árum, en að sama skapi hefur notkun greiðslukorta í snjalltækjum aukist. Árið 2018 notuðu 89 prósent þeirra sem á annað borð sögðust nota greiðslulausnir vikulega eða oftar plastgreiðslukort til að greiða fyrir vörur eða þjónustu, en núna árið 2022 er þetta hlutfall komið undir 60 prósent, samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Seðlabankann.
Að sama skapi eru nú 38,5 prósent byrjuð að nota greiðslukort í snjalltækjum til þess að greiða fyrir vörur og þjónustu á sölustöðum. Árið 2020 var hlutfallið 31,8 prósent, en snertilausar greiðslukortalausnir á borð við Apple Pay, Google Wallet og samsvarandi snjalllausnir íslensku viðskiptabankanna hafa orðið æ aðgengilegri á undanförnum árum.
Notkun reiðufjár dregst áfram saman og sögðust einungis 1,8 prósent svarenda sem notuðu greiðslulausnir oftar en einu sinni í viku að jafnaði nota reiðufé til þess að greiða. Þetta kemur fram í umfjöllun um notkun reiðufjár á Íslandi í ritinu Fjármálastöðugleiki, sem Seðlabankinn gaf út á miðvikudag.
Þrátt fyrir að fáir segist helst nýta reiðufé á sölustöðum er velta reiðufjár í greiðslumiðlun á sölustöðum áætluð í kringum 30 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins, sem myndi samsvara rúmlega 6 prósentum af heildarveltu sölustaða. Þetta hlutfall hefur dregist saman frá árinu 2020, en þá var reiðufé áætlað um 8 prósent af heildarveltu á sölustöðum.
82 milljarðar af seðlum og mynt í umferð
Í umfjöllun Seðlabankans kemur fram að reiðufé í umferð hér landi sé um 2,5 prósent af landsframleiðslu, sem sé frekar lágt hlutfall í alþjóðlegum samanburði. Undir lok síðasta árs voru 82 milljarðar króna í seðlum og myntum í umferð í samfélaginu og hafði upphæðin hækkað um hálfan milljarð frá fyrra ári. Þar af voru um 50 milljarðar króna í 10.000 króna seðlum.
Reiðufé helsta svar Íslands við rofi í greiðslukerfum
Í Fjármálastöðugleika segir að þrátt fyrir að notkun reiðufjár sé almennt lítil gegni það áfram mikilvægu hlutverki í rafrænum heimi til að stuðla að virkri og öruggri greiðslumiðlun. Bent er á að Seðlabankar standi nú frammi fyrir áskorunum í smágreiðslumiðlun, meðal annars vegna aukinnar ógnar af netárásum sem beinast að greiðslulausnum og greiðslukerfum.
„Alvarleg netárás á greiðslumiðlun getur leitt til þjónusturofs í lengri tíma og raskað miðlun fjármagns í hagkerfinu. Annars konar rof í innlendri rafrænni greiðslumiðlun getur líka valdið skaða, m.a. ef netsamband rofnar við umheiminn eða alþjóðlegt kortafyrirtæki ákveður að loka á notkun innlendra debet- og kreditkorta. Í dag fara um 99% allra greiðslukortafærslna í gegnum kortainnviði VISA og Mastercard. Ef kæmi til röskunar á rafrænni greiðslumiðlun í lengri tíma þarf að gera ráð fyrir því að heimilin geti tryggt sér með öðrum leiðum nauðsynjavörur eins og matvörur, eldsneyti og lyf,“ segir í umfjöllun Seðlabankans.
Sem stendur væri notkun reiðufjár í reynd ein helsta lausnin við rofi í innlendri rafrænni greiðslumiðlun og Seðlabankinn segist eiga „nægar birgðir af seðlum og mynt til að bregðast við langvarandi óvissuástandi“.
Minnst er á að innlendu viðskiptabankarnir séu um þessar mundir sömuleiðis að koma á markaði með nýja hraðbankalausn þar sem ekki þarf að nota greiðslukort til þess að taka út reiðufé. „Það getur að einhverju leyti leyst vandann ef lokað yrði á innlend debet- og kreditkort,“ segir í umfjöllun Seðlabankans.
Þar er líka vikið að því að Seðlabankinn sé um þessar mundir að meta leiðir sem komi til greina við innleiðingu á innlendri óháðri smágreiðslulausn, en slík lausn myndi virka ef eitthvað yrði til þess, t.d. netsambandsleysi við umheiminn, að ekki væri hægt að nýta alþjóðlega kortainnviði. Í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar frá því á miðvikudaginn sagði að mikilvægt væri skref hefðu verið tekin í þessar átt, í ljósi stöðunnar.