Það verða að teljast nokkuð óvænt tíðindi að Hanna Birna Kristjánsdóttir ætli að sækjast eftir því að vera áfram varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði af sér sem innanríkisráðherra í nóvember í fyrra, en þá voru komnar upp á yfirborðið upplýsingar sem staðfestu að hún hefði rætt rannsókn lögreglunnar á lekamálinu við Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Aðstoðarmaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson, fékk skilorðsbundinn dóm vegna upplýsingaleka úr ráðuneytinu sem hann játaði að lokum.
Þetta er líka nokkur áhætta fyrir Sjálfstæðisflokkinn í því að halda Hönnu Birnu sem varaformanni, því gengi hans í könnunum að undanförnu hefur ekki verið gott, og Píratar hafa á hann mikið forskot. Pólitískt mannorð Hönnu Birnu er ekki upp á marga fiska eftir það sem á undan er gengið, eins og hún hefur tjáð sig um sjálf.
Ef flokkurinn ætlar að auka fylgi þá þarf að hann að ná til nýrra kjósenda, frekar en að efla tengslin við þá sem hafa alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn. Það blasir við. Ekki er víst að þessi ákvörðun Hönnu Birnu verði til þess að styrkja forystuna fyrir komandi þingvetur, þó ekki megi vanmeta stjórnmálin. Þau eru oft vettvangur mikilla sviptinga, ekki síst þegar kemur að almenningsálitinu.