Samkeppniseftirlitið hefur veitt Pressunni ehf. undanþáguheimild frá samkeppnislögum til að ganga frá samruna sínum við DV á meðan að eftirlitsstofnunin fjallar um hann. Fjölmiðlafyrirtækin tvö geta því byrjað að samþætta verklag og þjónustu, meðal annars auglýsingasölu. Samkeppniseftirlitið hefur staðfest þetta við Kjarnann.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var ákvörðun Samkeppniseftirlitsins send bréflega í morgun. Undanþáguheimildin sem um ræðir varðar bann við samruna fyrirtækja á meðan hann er til umfjöllunar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Heimildir Kjarnans herma að Samkeppniseftirlitið hafi upplýst hlutaðeigandi, að rannsókn eftirlitsins á samrunanum gangi vel og afgreiðslu sé að vænta innan skamms. Ekkert óvænt hafi komið upp í þeirri vinnu.
Jafnan er sett hefðbundið skilyrði við undanþáguheimildina, að ekki sé gripið til neinna aðgera sem gera það ómögulegt að láta samruna fyrirtækja ganga til baka.
Kjarninn hefur heimildir fyrir því að nú muni hefjast undirbúningsvinna hjá hinu sameinaða fyrirtæki við sameiginlega stoðþjónustu, svo sem bókhald, tölvu- og markaðsmál, og auglýsingasölu. Þá mun Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður Pressunnar og væntanlegur útgefandi DV, eiga einstaklingsfundi með hverjum starfsmanni DV á morgun, en hann hyggst sömuleiðis kynna sér starfsemi blaðsins, rekstur þess og framtíðarsýn, að því er heimildir Kjarnans herma.