Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur ekki sést opinberlega síðan 5. mars síðastliðinn. Myndbandsupptaka sem birtist af honum á föstudag var einmitt það, myndbandsupptaka.
Fyrr í vikunni var sagt frá því í heimspressunni að hávær orðrómur væri um að Pútín hefði fengið heilablóðfall og þess vegna aflýst opinberri heimsókn sinni til Astana, höfuðborgar Kasakstan. Talsmenn forsetans báru þessar fréttir síðar til baka.
Í fréttaskýringu á vef Business Insider er sú hugmynd viðruð að fjarveru Pútíns úr kastljósinu megi útskýra með því að yfir standi harðvítug valdabarátta á bakvið tjöldin í Rússlandi. Og að það sem hafi ýtt henni af stað hafi verið morðið á stjórnarandstæðingnum Boris Nemtsov.
Reuters greindi frá því á fimmtudag að morðið hefði leitt af sér sjaldséða spennu milli ýmissa hópa innan stjórnkerfis Rússlands sem vanalega standa fast á bak við Pútín.
Auk þess vakti það mikla athygli þegar Andrey Illarinov, fyrrum efnahagsráðgjafi Pútíns, skrifaði bloggfærslu um það að fjarvera Pútíns benti til þess að valdarán hefði verið framið.