Vladimír Pútín Rússlandsforseti er kominn í leitirnar eftir miklar vangaveltur undanfarna daga um afdrif hans. Hann er mættur á fund með forseta Kirgistans, Almazbek Atambayev, í St. Pétursborg.
There he is, still breaking hands. RT @dimsmirnov175: Судя по лицу Атамбаева, рукопожатие и Путина крепкое pic.twitter.com/dGnfZdjVsb
— Christopher Miller (@ChristopherJM) March 16, 2015
Pútín hafði ekki sést opinberlega frá því 5. mars síðastliðinn. Undanfarna daga hafa ýmsar sögusagnir komist á kreik og þegar hann aflýsti opinberri heimsókn sinni til Astana, höfuðborgar Kasakstan, fóru af stað háværar sögusagnir um að Rússlandsforseti hefði fengið heilablóðfall.
Þær voru bornar til baka en skömmu síðar bárust fréttir af því að Pútín væri dauður. Þær voru líka bornar til baka og þá spruttu upp fréttir í fjölmiðlum víða um heim um að Pútín væri í raun í Sviss til að taka á móti barni sem hann sé að eignast í lausaleik með einni af ástkonum sínum, en Pútín skildi við Lyudmilu, eiginkonu sína til tæplega þriggja áratuga, í fyrra. Sú saga sem hefur verið lífseigust er samt sú að ástæða þess að Pútín sést ekki opinberlega sé sú að harðvítug átök séu á meðal valdaelítunnar í Kreml á bakvið tjöldin, og að þar séu öfl sem vilji svipta Pútín völdum.