„Við erum að búa okkur til einhverja mynd af Rússlandi sem er einfaldlega ekki rétt. Og það er hættuspil að halda áfram að byggja utanríkisstefnu Evrópu og Bandaríkjanna á einhverri mynd af Rússlandi.“
Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands í samtali við Egil Helgason í Silfrinu á RÚV í morgun.
Hann rifjaði upp umræðuna sem var í kringum Krímskagadeiluna árið 2014 og viðskiptaþvinganir ESB og Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi sem Ísland tók þátt í á sínum tíma. „Við fórnuðum milljörðum í útflutningstekjur. Við héldum að það myndi hafa áhrif en það hafði bara ekki nokkur áhrif,“ sagði hann.
Egill sagði að það hefði líklega verið leið Íslendinga til að standa á móti ofbeldi. Ólafur sagði að það hefði verið meira til að réttlæta okkur sjálf.
„Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá búum við í ljótri veröld. Við búum í veröld þar sem ríki eru með hagsmuni og þar sem að valdhafar geta verið vondir og grimmir og svo framvegis. Og alveg eins og á tímum kalda stríðsins þegar ógnarjafnvægið kom í veg fyrir styrjaldir þá þurfum við að finna leiðir og aðferðir sem búa til þannig aðhald að það leiði ekki til þessa hörmunga sem við erum að upplifa núna.
Þannig að það sem er alveg ljóst, hvort sem okkur líkar betur eða verr, er að þær aðferðir sem við höfum verið að beita á síðustu tuttugu árum hafa ekki haldið Pútín í skefjum. Og það sem ég er í rauninni að segja núna er: „Eigum við ekki að opna umræðuna og finna einhverjar nýjar aðferðir til þess að geta haldið honum í skefjum?“,“ sagði Ólafur Ragnar.
Er Pútín bilaður?
Egill spurði hvort hann héldi að Pútín væri hreinlega bilaður. „Nei, það held ég alls ekki,“ sagði hann og spurði hvort til væri sá þjóðarleiðtogi sem fyndist það í rauninni.
„Hann er hins vegar að reka miskunnarlaus og af ótrúlegri hörku það sem hann telur vera geopólitíska hagsmuni Rússlands – þessa stóra mikla lands með þetta gríðarlega vopnabúr. Og það er miklu líklegra að við náum árangri að horfa á hann þannig heldur en að segja bara: „Já, hann er klikkaður. Hann er bara klikkaður.““
Ólafur Ragnar greindi frá því í viðtalinu að hann hefði fyrst hitt Pútín fyrir tuttugu árum síðan í opinberri heimsókn til Rússlands.
Egill sagðist muna eftir því að Ólafur Ragnar hefði talað vel um Pútín á þessum tíma.
„Já, hann hefur á öllum þessum fundum sem ég hef átt við hann verið tiltölulega hógvær, tiltölulega skynsamur, hlustað á öll rök, aldrei reynt að ýta mér eða Íslandi í einhverja óþægilega stöðu og ég hef nú rætt við marga forystumenn í veröldinni. Og meira segja á fyrstu árunum þá fannst mér margt af því sem hann sagði mjög merkilegt. Hann sagði til dæmis við mig á þessum fyrstu fundum að hann hefði varað Bandaríkin gagnvart íslamistunum, að þeir myndu ráðast á Bandaríkin fyrr eða síðar eins og þeir hefðu ráðist inn í Rússland. En það hefði enginn vilja hlusta á hann.
Og á öllum þessum árum sem ég átti samskipti við hann – og ég var líka með honum í opinberum samkvæmum og öðru slíku – þá kom hann mér ekki fyrir sjónir sem kolruglaður öfgamaður eða fantur. En hann er náttúrulega í landi sem hefur engar lýðræðishefðir.“
Ólafur Ragnar sagðist þó hafa tekið eftir því fyrir fimm eða sex árum síðan að hugarfar Rússanna væri að taka breytingum. Þeir væru komnir með „bunker mentality“ eins og þeir væru að lokast inn í byrði vegna þess að veröldin væri á móti þeim. Evrópa væri á móti þeim og Bandaríkin væri á móti þeim – og það skipti þá engu máli því þeir ætluðu einungis að hugsa um sjálfa sig.
Hægt er að hlusta á viðtalið hér á 45 mínútu.