Vladímir Pútín Rússlandsforseti er valdamesti maður heims samkvæmt uppfærðum lista fagtímaritsins Forbes. Hann skákar Barack Obama forseta Bandaríkjanna, líkt og hann gerði á síðasta ári þegar hann tók efsta sætið af Obama.
Að mati Forbes hefur Pútín gríðarlega mikil völd og áhrif í heiminum í dag, ekki síst í gegnum opinbera orkustefnu ríkisstjórnar hans sem hefur áhrif um alla Evrópu, til Asíu og þannig á heimsbúaskapinn allan. Þá hefur hann einnig sýnt óttaleysi í samskiptum við Bandaríkin.
Hinn 62 ára gamli Pútín, sem er með doktorspróf frá ríkisháskólanum í St. Pétursborg í Rússlandi, hefur einnig sýnt að honum er alvara með að breyta Rússlandi í Sovétríkin. Útþenslustefna hans og ógnartilburðir gagnvart Úkraínu hafa skapað ótta um alla Evrópu.
Hvað sem fólki finnst þá hefur þessi staða aukið völd Pútíns, að mati Forbes, og það sama má segja um gríðarlega stóra jarðgas viðskiptasamninga sem Rússar hafa gert við Kína og Íran á árinu. Meðal annars samning við Kína upp á 70 milljarða Bandaríkjadala, 8.610 milljarða króna.
Uppfærðan lista Forbes yfir valdamesta fólks heims má sjá hér.