Fyrirtækið Plain Vanilla, sem rekur spurningaleikinn QuizUp, hefur samið við Íslandsbanka um að bankinn taki nýja vöru QuizUp í gagnið, „QuizUp at work“ að nafni. Varan er sérstaklega ætluð fyrirtækjum og er Íslandsbanki fyrsta fyrirtækið til þess að nota innleiða hana. Þessu nýja tóli er ætlað að vera tól til að fræða, þjálfa og skapa góðan starfsanda, segir í tilkynningu frá QuizUp.
Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um QuizUp at Work á síðustu dögum, meðal annars TechChrunch og The Next Web. Í tilkynningunni segir að í kjölfar umfjöllunar erlendis hafi nokkur hundruð beiðnir frá fyrirtækjum borist um að fá kynningu á möguleikum QuizUp at Work.
„QuizUp at Work verður algerlega til hliðar við QuizUp samfélagið sjálft og munu starfsmenn viðkomandi fyrirtækja fá aðgang að lokuðu samfélagi þar sem þeir geta kynnst hver öðrum, spreytt sig á sérsniðnum spurningum er varða starf sitt eða vinnustaðinn og komið ábendingum á framfæri. Samfélagshluti býður upp á margar leiðir til að efla menningu og starfsanda fyrirtækja. Þar er hægt að setja í gang litla leiki í kringum viðburði innan fyrirtækjanna og byggja upp stemmningu hjá starfsfólki fyrir þeim. Þá er hægt að nota appið til að kynna og upplýsa starfsmenn um markaðsherferðir sem eru að fara í gang eða kynna þeim nýjar vörur og þjónustu fyrirtækjanna. Einnig getur þetta verið góð leið til að kynna nýja starfsmenn, þjálfa þá og hjálpa þeim að kynnast vinnufélögum sínum,“ segir um nýja vöru QuizUp.
Þorsteinn B. Friðriksson, stofnandi og framkvæmdastjóri QuizUp, segir að það hafi ekki beint verið fyrirséð að þróuð yrði sérstök vara fyrir fyrirtæki. „Það er samt stundum þannig að óvæntir markaðir opnast þar sem að eiginleikar nýrrar tækni nýtast mjög vel. Símenntun og þjálfun er orðinn mjög stór þáttur í starfsemi fyrirtækja, en um leið þá eru aðferðirnar sem er beitt frekar gamaldags. Þess er krafist að fólk sitji og hlusti á fyrirlestra heilu og hálfu dagana eða setjist niður og lesi langar handbækur. Fólk hefur minni þolinmæði gagnvart slíku í dag og þarna eru kostir QuizUp at Work augljósir. Í raun gætum við þróað QuizUp í fleiri slíkar áttir t.d. sem kennslustól fyrir skóla en við ætlum samt að byrja á stórum fyrirtækjum. Við sjáum að þörfin er mjög mikil fyrir tól sem hjálpa til við þjálfun starfsfólks.“
Hafsteinn Bragason, mannauðsstjóri Íslandsbanka, segir að hagræði felist í vöru QuizUp. „Við leggjum mikla áherslu á að vera stöðugt að efla starfsfólk Íslandsbanka með því að bjóða upp á ýmis konar fræðslu og þjálfun. Tækninni fleygir fram og í nútímaumhverfi þarf fólk einfaldlega sífellt að vera að mennta sig. Við sjáum hins vegar á rannsóknum að mikilvægt er að nýta fjölbreyttari kennsluaðferðir nú en áður og við teljum QuizUp at Work henta vel í okkar fræðslustarf. Alls konar hagræði fylgir QuizUp at work. Það þarf t.d. engin námskeiðsgögn og fólk spilar QuizUp á sínum síma, í sínu umhverfi og á þeim tíma sem hentar. Þar fyrir utan er þetta mjög fersk nálgun í fræðslu með mikið skemmtanagildi. Starfsfólk bankans mun án efa taka þessari nýjung fagnandi sem mun nýtast okkur vel.“
Athugasemd ritstjórnar: Í fyrri útgáfu fréttarinnar stóð að fyrirtækið Plain Vanilla héti í dag QuizUp, eins og leikurinn. Það er ekki rétt, félagið heitir Plain Vanilla.