Bréfi Eplis, umboðsaðila hugbúnaðar- og tölvurisans Apple hér á landi, til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, varðandi aðstoð við að semja við Apple um byggingu gagnavers á Íslandi, var aldrei svarað. Apple aflaði sér á sínum tíma upplýsinga um Ísland en tilkynnti í gærmorgun að það ætlaði sér að byggja tvö 166 þúsund fermetra gagnaver í Danmörku og á Írlandi. Heildarfjárfesting við verkefnin er 1,7 milljarðar evra, eða sem nemur 255 milljörðum króna.
Fréttastofa RÚV greindi frá þessu í gærkvöldi. Bréf Eplis var sent í mars í fyrra en í því er óskað eftir aðstoð við að koma á fundi með forsvarsfólki Apple í Bandaríkjunum og vekja áhuga þeirra á því að byggja gagnaver sitt hér. Nokkur bréf til viðbótar voru send til ítrekunar, en þeim ekki heldur svarað.
Í samtali við RÚV sagði Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, að ráðuneytið hafi talið að ráðherra gæti ekki komið að viðskiptasamningum með slíkum hætti án formlegra erinda beint frá Apple. Þá sé verið að kanna hvers vegna sendingum Eplis var ekki formlega svarað með þessum hætti.
Eins og Kjarninn greindi frá í gær, þá vildu forsvarsmenn Landsvirkjunar ekki upplýsa um hvort það hefðu farið fram viðræður við Apple um möguleikann á því að reisa hér á landi gagnaver á vegum fyrirtækisins sem orka frá Landsvirkjun myndi knýja. Í fréttatilkynningu Apple til kauphallar kemur fram að eitt af því sem réði úrslitum um að Danmörk og Írland urðu fyrir valinu var möguleikinn á kaupum á vistvænni endurnýjanlegri orku.