Hvernig tryggir Ísland best framtíðarhagmuni sína í alþjóðasamfélaginu er umfjöllunarefnið í lokaþætti Völundarhúss utanríkismála Íslands. Í þættinum ræðir Baldur Þórhallsson þáttastjórnandi og prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands við þau Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra og aðjúnkt við Harvard háskóla og Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra og höfund ítarlegrar skýrsla um utanríkismál Íslands.
Í þættinum er meðal annars rætt um helstu áskoranir og tækifæri sem Ísland stendur frammi fyrir í alþjóðamálum, hvernig íslenskum ráðamönnum hafi gengið að feta sig í alþjóðasamfélaginu frá lokum kalda stríðsins og hvort Ísland hafi tryggt sér bandamenn sem geta aðstoðað við að tryggja hagsmuni sína.
Ríkir óvissa um utanríkisstefnuna?
Fram kemur að allt frá lýðveldisstofnun til loka kalda stríðsins hafi utanríkisstefna Íslands þrjú skýr meginmarkmið. Þau hafi falið í sér stækkun landhelginnar, þátttöku í varnarsamvinnu Vesturlanda og bættan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir á erlenda markaði – einkum á markaði í Evrópu.
Auk þessa hafi Ísland tekið þátt í norrænni samvinnu, verið í nánum efnahags- og viðskiptatengslum við Bandaríkin og gengið til liðs við flestar alþjóðastofnanir sem settar voru á fót á eftirstríðsárunum – án þess þó að taka virkan þátt í þeim. Segja má að þessi skýru markmið utanríkisstefnunnar hafi reynst Íslendingum farsæl. Nú sé hins vegar spurningin hvort óvissa ríki um utanríkisstefnuna og hvort íslenskir ráðamenn hafi náð að fóta sig í breyttri heimsmynd.
Í þættinum kemur jafnframt fram að staða Íslands hafi gjörbreyst og megi jafnvel segja að ráðamönnum hafi gengið erfiðlega að finna nýja bandamenn eftir að þeir gömlu hurfu á braut eða að endurnýja tengslin við þá gömlu. Deilt sé um hvort leggja beri áherslu á tvíhliða samvinnu við einstök ríki, eins og Bandaríkin, Kína og Rússland, eða fjölþjóðasamvinnu innan alþjóðastofnana, eins og við Evrópusambandið og þátttöku öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Einnig séu mjög skiptar skoðanir uppi um það hvort Ísland geti staðið eitt og sér í alþjóðasamfélaginu eða þurfi á skjóli alþjóðastofnana eða einstakra ríkja að halda.
Ísland stendur frammi fyrir nýjum áskorunum
Ágreiningur kemur fram í þættinum um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu – mikilvægasta markaðssvæði landsins – og að samskiptin við Bandaríkin virðist fyrst og fremst taka mið að samkeppni Bandaríkjanna við Kína og Rússland. Bandaríkin veiti Íslandi ekki lengur efnahagslegt skjól og diplómatíska aðstoð eða skjól í samfélagi þjóðanna.
Þá standi Ísland einnig frammi fyrir nýjum áskorunum í alþjóðasamfélaginu eins og loftslagsvánni, netárásum, upplýsingaóreiðu og vaxandi flóttamannastraumi. Áskorunum sem verði að taka afstöðu til. Fyrir utan þetta sé svo spurningin hvaða málaflokkum Ísland vilji forgangsraða og hafa áhrif á í samfélagi þjóðanna.