Nýtt frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til breytinga á loftferðalögum felur í sér að ráðherra muni geta sett skipulagsreglur fyrir flugvelli sem gangi framar svæðis-, aðal- og deiliskipulagi sveitarfélaga.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar og borgarfulltrúi Pírata, segir að hún telji frumvarp ráðherra „galið“ að þessu leyti.
„Við fyrstu sýn slær það mig sem tilraun ráðherra til að svipta sveitarfélög á Íslandi skipulagsvaldinu og ekki annað hægt en að fordæma það,“ segir Sigurborg Ósk í skriflegu svari til Kjarnans, innt eftir viðbrögðum.
Sveitarfélög landsins yrðu, samkvæmt frumvarpinu, bundin af því að haga skipulagi á og umhverfis flugvallarsvæði í samræmi við skipulagsreglur ráðherra og gerð yrði krafa á þau um að samræma skipulagsáætlanir sínar við reglur ráðherra, setji hann slíkar.
Þetta er einungis eitt margra efnisatriða í afar efnismiklu frumvarpi um heildarendurskoðun laga um loftferðir, en frumvarpið ásamt greinargerð er næstum því 135 þúsund orð og snýst að mestu leyti um innleiðingu ýmssa Evrópureglugerða um flugmál inn í íslenskan rétt með lagasetningu.
Sigurður Ingi vakti þó sérstaklega athygli á þessu eina afmarkaða atriði á Instagram-síðu sinni í gærkvöldi, eftir að hann mælti fyrir frumvarpinu á þingi síðdegis.
Í núgildandi lögum um loftferðir segir að ráðherra sé heimilt að setja skipulagsreglur fyrir flugvelli, en ekki er kveðið á um að skipulagsreglurnar séu bindandi fyrir sveitarfélögin þar sem flugvellirnir eru staðsettir eða gangi framar skipulagi þeirra. Það er nýnæmi í þessu frumvarpi ráðherra.
Ekki unnið í samráði við sveitarfélög
Sigurborg Ósk segir að hún telji frumvarpið með öllu óásættanlegt. „Alveg óháð því hver hans persónulega afstaða til flugvallarins í Vatnsmýri er, þá er þetta frumvarp með öllu óásættanlegt. Í frumvarpinu er lagt til að skipulagsreglur flugvalla, sem ráðherra setur, eigi að ganga framar aðalskipulagi. Það er galið og ekki unnið í samráði við sveitarfélög þessa lands,“ segir Sigurborg Ósk.
Hún segir að á Íslandi sé það „grundvallaratriði að sveitarfélög fái sjálf að haga uppbyggingu innan sinna marka eins og þau telja best. Aðalskipulög eru faglega unnin skipulög fyrir íbúa þessa lands og ótækt að ríkið ætli sér að umbylta því. Hvort sem um er eða ræða Reykjavík eða Akureyri, skipulagsvaldið hvílir þar,“ segir formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar.
Reykjavíkurborg sagði skipulag sveitarfélaga rétthærra en skipulagsreglur ráðherra
Er frumvarpið var til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda í haust gerðu bæði Reykjavíkurborg og Samtök íslenskra sveitarfélaga athugasemdir við þetta ákvæði, sem þó rataði efnislega samhljóða inn í hinn mikla lagabálk sem nú hefur verið lagður fram í þinginu.
Í umsögn Reykjavíkurborgar sagði meðal annars að samkvæmt rétthæð réttarheimilda sem gildi samkvæmt íslenskum rétti gætu skipulagsreglur ekki vikið til hliðar svæðis-, aðal- og deiliskipulagi sem sett væri á grundvelli skipulagslaga, heldur þyrftu skipulagsreglur flugvallar alltaf að vera í samræmi við það skipulag sem gildi á hverjum tíma í því sveitarfélagi sem hýsir flugvöll.
Samband íslenskra sveitarfélaga sagði að huga þyrfti mjög vel „að samspili lögbundins skipulagshlutverks sveitarfélaga og heimild ráðherra til setningar skipulagsreglna.“
„Við setningu skipulagsreglna hlýtur ráðherra að þurfa að taka mið af skipulagi sveitarfélagsins og þar með bregðast við með setningu nýrra reglna, innan ákveðinna tímamarka, þegar sveitarfélög gera breytingar á skipulagi sem hefur áhrif á áhrifasvæði flugvalla. Í því sambandi þarf að hafa sérstaklega í huga þann eðlismun sem er á rétti sveitarfélaga til heildarskipulags á sínu svæði annars vegar og þrengra markmiði skipulagsreglna um flugöryggi hins vegar,“ sagði í umsögn Sambandsins, sem hvatti ráðuneytið einnig til að taka mið af athugasemdum Reykjavíkurborgar um málið.
Kjarninn falaðist í morgun eftir viðtali við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um þetta efnisatriði frumvarpsins, en engin viðbrögð hafa fengist.