Frumvarp Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um breytingar á stjórnarráðinu var samþykkt á Alþingi í dag. Það hefur meðal annars í för með sér að nú mega því ráðherrar ákveða aðsetur stofnana sem heyra undir þá, því sú heimild, sem hafði verið tekin út úr lögum árið 2011, er endurvakin. Einnig verður nú heimilt að flytja starfsmenn á milli ráðuneyta og stofnana.
Þetta hefur verið mikið gagnrýnt frá því að frumvarpið kom fram, ekki síst í ljósi misheppnaðrar tilraunar Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til þess að færa Fiskistofu til Akureyrar.
Sú breyting hefur orðið á lögunum að nú þarf ráðherra að gefa Alþingi skýrslu um fyrirhugaðan flutning á aðsetri stofnunar áður en ákvörðun er tekin. Það breytir þó engu um heimildir viðkomandi ráðherra til að flytja stofnanir.
Þá verður samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna lögð niður með gildistöku laganna. Í staðinn fyrir nefndina, sem sjö einstaklingar eiga að sitja í og á að starfa að siðferðislegum málum innan stjórnsýslunnar, mun forsætisráðuneytið veita ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað. Síðasta skipan nefndarinnar rann út haustið 2013 og Sigmundur Davíð hefur aldrei skipað nýja nefnd.
Í desember síðastliðnum hvatti Ríkisendurskoðun til þess að ráðuneytið skipaði nýja nefnd í samræmi við ákvæði laga. Það var gert í tengslum við könnun Ríkisendurskoðunar á þekkingu starfsmanna Stjórnarráðsins á siðareglum fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands. Í könnuninni kom fram að stór hluti starfsmanna taldi sig ekki þekkja siðareglurnar vel.