Meðaltals ráðstöfunartekjur Meniga-heimila voru 5,3 milljónir króna árið 2014 eða tæpar 442 þúsund krónur á mánuði. Miðgildið var 4,5 milljónir eða 375 þúsund krónur á mánuði. Staðalfrávikið var ansi hátt, eða 3,2 milljónir króna. Meðaltekjur heimilanna voru tæpar 5 milljónir árið 2013 eða um 415.000 krónur á mánuði. Árið 2014 höfðu tekjurnar aukist um 6,55% í 442.000 á mánuði.
Meðaltekjur tekjufjórðunganna eru á bilinu frá 2,3 milljónum til 9,6 milljóna (192.000 - 800.000 á mánuði). Þannig eru meðaltekjur hæsta hópsins rúmlega fjórfaldar meðaltekjur þess lægsta.
Tekjur tekjulægsta fjórðungsins hækkuðu hlutfallslega mest eða um 8,7% á meðan tekjur tekjuhæsta fjórðungsins hækkuðu um 5,6%. Í krónum talið jukust tekjur efsta hópsins um 510.000 krónur á meðan tekjur þess lægsta jukust um 181.000 krónur.
Það er mikilvægt að hafa í huga að aukningin endurspeglar ekki breytingar á launakjörum. Ástæður þeirra mætti hugsanlega rekja til breytinga á vinnustundum eða breytinga í skatt- og bótakerfinu.
Um úrtakið og ráðstöfunartekjur
Notast var við heildar ráðstöfunartekjur 13.307 heimila sem nota Meniga að jafnaði og þeim skipt í fjóra jafnstóra hópa eftir tekjum. Gögnin miða við allar reglulegar ráðstöfunartekjur yfir árin 2013 og 2014. Í úrtakið voru valin heimili sem sýndu að lágmarki 1 milljón króna í árstekjur og að hámarki 50 milljónir; og sýndu reglulegar tekjur bæði árin. Í Meniga er notendum í sjálfsvald sett að tengja sig við maka, eða vera ótengdur. Þannig getur “Menigaheimili” gefið hálfa eða fulla mynd af venjulegu heimili.
Með ráðstöfunartekjum er átt við heildartekjur eftir skatta, meðlag, bætur (þmt barnabætur, atvinnuleysisbætur húsaleigubætur og vaxtabætur), styrki, lífeyrisgreiðslur og námslán.
—
Ofangreindar upplýsingar eru fengnar úr Meniga-hagkerfinu og unnar í samstarfi Stofnunar um fjármálalæsi og Meniga. Meniga hjálpar fólki að halda utan um fjármál heimilisins og er heildarfjöldi notenda um 40.000. Aldrei er unnið með persónugreinanleg gögn í Meniga-hagkerfinu. Nánari upplýsingar má finna á www.fe.is og www.meniga.is.