Íslensk stjórnvöld eru sögð hafa beitt sér gegn því að Evrópusambandið (ESB) beitti Aleksander Moshensky, kjörræðismanni Íslands í Hvíta-Rússlandi, viðskiptaþvingunum. Þetta kemur fram í ítarlegri úttekt á málinu í Stundinni í dag.
Moshensky þessi er einn umsvifamesti viðskiptajöfur Hvíta- Rússlands og hefur auk þess verið kjörræðismaður Íslands þar í landi frá árinu 2007. Hann er talinn mjög handgengur Aleksander Lukashenko, forseta landsins, og hefur hagnast gríðarlega í einu miðstýrðasta efnahagskerfi Evrópu, sem byggir mjög á nánu sambandi við ráðamenn. Veldi hans veltir um 220 milljörðum króna á ári. Fyrir vikið er Moshensky oft kallaður„veski Lukashenkos“.
Á meðal þeirra sem Moshensky stundar viðskipti við eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Hann kaupir mikið magn sjávarafurða héðan, sérstaklega loðnu, síld og makríl, og hagsmunir íslenskra útgerða í viðskiptum við hann hlaupa á milljörðum króna. Þau viðskipti eru meðal annars við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum en í Stundinni segir að náin vinátta hafi skapast milli Moshensky og forstjóra Vinnslustöðvarinnar, Sigurgeirs Brynjars Kristgeirssonar.
Ítrekað sloppið
Í umfjöllunar Stundarinnar kemur fram að nafn Moshensky hafi ítrekað verið á lista yfir þá sem Evrópusambandið hafi ætlað að setja á lista yfir fólk sem refsiaðgerðir nái til, en að það hafi ætið verið fjarlægt skömmu áður en listarnir voru formlega samþykktir. Það hafi gerst árið 2012, þegar sambandið ætlaði að koma í veg fyrir að auðmenn sem höfðu hagnast í skjóli Lukashenko fengu að stunda viðskipti innan þess. Sjö nöfn voru á upphaflega listanum en tvö sluppu af honum fyrir formlega samþykkt. Annað þeirra er Alexander Moshensky.
Í maí 2021 kastaðist enn í kekki í samskiptum Lukashenko við umheiminn þegar farþegaflugvél Ryanair var skipað að lenda í landinu af herþotum vegna þess að blaðamaður sem hafði gagnrýnt forsetann var um borð. Aftur átti að herða þvinganir gagnvart einstaklingum sem veittu Lukashenko fjárhagslegan styrk, aftur átti Moshensky að vera á honum en aftur slapp hann við það á endanum.
Í Stundinni er haft eftir heimildarmönnum að þar hafi hagsmunagæsla íslenskra stjórnvalda fyrir hönd Moshensky „vegið þungt“. Þar er meðal annars vitnað í umfjöllun dagblaðsins Nashavina sem vísaði í óstaðfestar heimildir „þess efnis að Moshensky hefði ræst út og notið aðstoðar íslenskra stjórnvalda til þess að koma sér undan því að lenda í hörðum refsiaðgerðum ESB“.
Íslensk stjórnvöld sögð hafa beitt sér
Í Stundinni er vitnað í samtöl við einstaklinga innan íslensku utanríkisþjónustunnar sem lýstu því „hvernig íslenska sendiráðið í Brussel hefði fylgst náið með allri umræðu um mögulegar viðskiptaþvinganir gegn valdamönnum í Hvíta-Rússlandi ef vera kynni að Aleksander Moshensky, kjörræðismaður Íslands og mikilvægur viðskiptavinur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, ætti á hættu að lenda í sigti ESB. Sendiráðið hafi svo einnig haft milligöngu um að þrýsta á að Moshensky yrði hlíft“.
Sendiherra Íslands í Brussel, Kristján Andri Stefánsson, neitaði að svara fyrirspurn Stundarinnar um með hvaða hætti hann eða aðrir embættismenn hefðu beitt sér fyrir hönd Moshensky og vísaði á utanríkisráðuneytið.
Í skriflegu svari frá ráðuneytinu til Stundarinnar sagði að í lok árs 2020 hefði verið brugðist við orðrómi um að Moshensky kynni að verða á þvingunarlista Evrópusambandsins. „Íslensk stjórnvöld leituðu eftir frekari upplýsingum meðal samstarfsríkja innan ESB og miðaði eftirgrennslan stjórnvalda að því að upplýsa hvort að til stæði að setja ræðismanninn á lista, og ef svo væri, á hvaða forsendum. Þá var leitast við að skilja hvaða áhrif það mundi hafa á útflutning íslenskra fyrirtækja til Belarús ef þvingunaraðgerðir beindust að honum eða fyrirtækjum hans. Var þetta gert í því skyni að hafa svigrúm til að bregðast við ef svo væri enda hefði vera hans á slíkum lista haft afleiðingar fyrir þjónustu hans í þágu íslenskra hagsmuna.“
Ráðuneytið svaraði því ekki hvort samtöl íslenskra stjórnvalda við Evrópusambandið hefðu skilað því að Moshensky komst hjá því að lenda á endanlegum þvingunarlista Evrópusambandsins.
Þórdís Kolbrún sökuð um hræsni
Í forsetakosningunum 2020 ákvað Svetlana Tsikhanovskaya að bjóða sig fram til forseta gegn Lukashenko í mótmælaskyni við handtöku eiginmanns síns, sem hafði áður verið forsetaframbjóðandi. Hún flúði síðar land og hefur farið um heiminn til að afla stuðnings við baráttu sína fyrir frjálsara og lýðræðislegra Hvíta-Rússlandi, meðal annars á Íslandi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, birti til að mynda mynd af sér og Tsikhanovskayu, á Twitter í síðasta mánuði þar sem stóð: „Átti frábæran fund með vinkonu minni Tsikhanovskayu á föstudagskvöldið í München. Við stöndum með lýðræði og mannréttindum til handa íbúum Hvíta-Rússlands.“
Had an excellent meeting with my friend @Tsihanouskaya on Friday night in Munich. We are on the side of democracy and human rights for the people of Belarus. #MSC2022 pic.twitter.com/W0sKxj6kGd
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (@thordiskolbrun) February 19, 2022
Í Stundinni er haft eftir Serge Kharytonau, sérfræðingi hjá iSans og fyrrverandi blaðamanni í Hvíta-Rússlandi, að almennt þyki afstaða utanríkisráðherrans bera vott hræsni í ljósi þess að einn helsti stuðningsmaður Lukashenkos sé kjörræðismaður Íslands í landinu og standi í miklum viðskiptum við íslensk fyrirtæki. Þórdís sagði í skriflegu svari til Stundarinnar að í samtölum sínum við Tikhanovskayu hafi hún upplýst um að Íslandi sé ekki kunnugt um mannréttindabrot eða skoðanakúgun innan fyrirtækja Moshensky. „Þá er rétt að taka fram að það hefur verið mat ráðuneytisins að það sé orðum aukið að kjörræðismaður Íslands sé mjög náinn bandamaður Lúkasjenkós og því hefur ekki þótt vera tilefni til þess að endurskoða stöðu hans hvað sem síðar kann að verða.“