Verðið á bensíni og olíum er nú 18 prósentum hærra en það var fyrir ári síðan. Sömuleiðis tók verðið á rafmagni, sem hefur haldist nokkuð stöðugt á síðustu árum, kipp í þessum mánuði. Þetta kemur fram í nýbirtum verðbólgutölum Hagstofu.
Samkvæmt tölunum mældist verðbólgan í þessum mánuði 5,7 prósent og hefur hún ekki verið meiri í tæp tíu ár. Þar vega verðhækkanir á fasteignamarkaði þungt, en ef ekki væri tekið tillit til þeirra í verðbólgumælingum myndi verðbólgan mælast 3,7 prósent. Sömuleiðis hefur verðið á viðhaldi og viðgerðum á húsnæði hækkað hratt, en slík þjónusta kostar nú 7,4 prósentum meira en hún gerði í janúar í fyrra.
Hins vegar hafa aðrir vöruflokkar einnig byrjað að hækka í verði. Þar ber helst að nefna verðhækkanir á bensíni og olíum, en ef þeirra nyti ekki við væri verðbólgan 0,6 prósentustigum lægri en hún er. Allt frá því í október í fyrra hefur verðbólgan í vöruflokknum „bensín og olíur“ verið um 20 prósent.
Miklar breytingar urðu einnig á verði rafmagns í mánuðinum, en verðið á því hækkaði um 5,8 prósent á milli mánaða. Rafmagnsverð hefur venjulega haldist nokkuð stöðugt, en verðbólgan í vöruflokknum hefur venjulega haldist í kringum tvö prósent á síðustu tveimur árum. Í þessum mánuði mældist hún hins vegar sex prósent.
Líkt og Kjarninn hefur áður minnst á hefur vægi matvöru í verðbólgunni minnkað nokkuð á síðustu mánuðum, en í þessum mánuði jókst það aftur. Þó eru verðhækkanirnar í vöruflokkinum nokkuð hóflegar á ársgrundvelli, en matur kostar nú þremur prósentum meira en hann gerði í janúar í fyrra. Mest hækka mjólkurvörur í verði, en þær eru sjö prósentum dýrari en þær voru í fyrra.