„Ég tel seðlabankastjóra algjörlega ómarktækan og trúverðugleiki Seðlabankans er löngu fokinn,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, spurður hvort hann taki til sín orð Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um þörf á aðhaldi. Hann segir Seðlabankann bera ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin að stóru leyti, þ.e. því hvernig húsnæðismarkaðurinn hefur þróast.
„Þetta áhlaup sem varð á húsnæðismarkaðinn er vegna mjög brattrar lækkunar vaxta án mótvægisaðgerða,“ sagði Ragnar Þór í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2. „Þarna gerði bara Seðlabankinn stórkostleg mistök. Stór hagstjórnar mistök.“ Afleiðingin sé sú að verðbólgan mælist 9,2 prósent. Ef húsnæðisliðurinn væri tekinn út væri verðbólgan hins vegar með því lægsta sem þekkist í Evrópu. „Þannig að Seðlabankinn ber einn ábyrgð á því hvernig staðan er hvað þetta varðar.“ Ragnar sagði yfirvald sem ekki geti viðurkennt að hafa gert mistök ekki hafa viðringu sína „og mjög skaddaðan trúverðugleika“.
Aðgerðir Seðlabankans að undanförnu með hækkun stýrivaxta „refsa stórum hópi fólks sem er ekki að fara til Tenerife og eyða um efni fram heldur er bara að reyna að komast af milli mánaða.“ Stýrivaxtahækkanirnar bíti hins vegar lítið á þeim tekjuhæstu sem mestu eyði.
VR, Landssamband verzlunarmanna og iðnaðarmanna reynir nú að ná kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins. Í gær var fundur hjá ríkissáttasemjara og sá næsti verður á morgun, föstudag.
Ragnar segir stjórnvöld hafa lofað aðgerðum til þess að mæta vanda þeirra sem standa illa á húsnæðismarkaði. Til dæmis koma á leiguþaki og þrengja að verðtryggðum lánum. Það sé skilningur að eitthvað þurfi að gera, en lítið hafi verið gert. „Nú er tími aðgerða kominn. Hér verður eitthvað að fara að gerast. Vegna þess að staðan er grafalvarleg og versnar með degi hverjum.“
Hann segist ekki geta svarað því hvort að samningar muni nást á næstu dögum.