Uppbygging á ferðamannastöðum er eitt brýnasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir og vandinn sem við blasir í uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu er margþættur og einskorðast ekki eingöngu við salernismál. Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í aðsendri grein í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag.
„Ljóst er að málið er á ábyrgð margra aðila, ríkis, sveitarfélaga, landeigenda og ferðaþjónustunnar sjálfrar. Því er brýnt að allir vinni saman að lausn þessara mála. Á undanförnum mánuðum hefur ráðuneyti mitt í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu og fleiri unnið að langtíma stefnumótun fyrir greinina í heild. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu og kynna í næsta mánuði,“ skrifar Ragnheiður Elín. Hún segir að vel hafi verið til vandað, litið til fordæma erlendis frá og samráð haft við hagsmunaaðila og aðra áhugasama um land allt.
Vandinn sem við blasi sé margþættur og úrbóta víða þörf til að tryggja vernd náttúrunnar, öryggi og nauðsynlega innviði. „Frumvarpi um náttúrupassa var ætlað að leysa heildstæss þetta margþætta viðfangsefni“ skrifar Ragnheiður Elín.
Hún segir að ríkissjórnin hafi sett meira í málaflokkinn en nokkru sinni fyrr hafi verið gert. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hafi úthlutað tæpum 1.700 milljónum á síðustu tveimur árum. Þá hafi auknu fjármagni verið úthlutað sérstaklega til að bæa salernisaðstöðu víða um land.
„Reyndar er það svo að fleira tefur uppbyggingu en skortur á fjármagni og má þar nefna skipulagsmál og annan undirbúning. Sem dæmi má nefna að af þeim 380 milljónum sem Framkvæmdasjóðurinn úthlutaði sérstaklega vorið 2014, án mótframlags, liggja tæpar 200 milljónir enn óhreyfðar vegna þess að verkefnunum er ekki lokið.“