Alþingi tilnefndi í dag níu aðalmenn og níu varamenn í stjórn Ríkisútvarpsins. Ragnheiður Elín Árnadóttir, Marta Guðrún Jóhannesdóttir og Mörður Áslaugarson koma ný inn sem aðalmenn í stjórninni.
Til viðbótar bætist svo einn stjórnarmaður og annar til vara sem tilnefndir eru af hálfu starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins, en stjórn RÚV er formlega kosin á aðalfundi sem fram fer í apríl hvert ár.
Ragnheiður Elín sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 2007 til 2016 og gegndi embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá 2013 til 2017, en hún ákvað að hætta í stjórnmálum eftir að Páll Magnússon skákaði henni í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi fyrir kosningarnar 2016.
Athyglisvert er að með tilkomu Marðar Áslaugarsonar í stjórn RÚV sitja tveir karlar sem bera nafnið Mörður saman í stjórn Ríkisútvarpsins, en fyrir var þar á fleti Mörður Árnason. Samkvæmt Þjóðskrá bera einungis fimm karlar á Íslandi nafnið sem fyrsta eiginnafn.
Stjórn RÚV fer með með æðsta vald í málefnum þess á milli aðalfunda. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri RÚV og að farið sé eftir lögum um Ríkisútvarpið, að samþykktir þess og ákvæði samnings um fjölmiðlun í almannaþágu séu uppfyllt.
Fulltrúar Alþingis í stjórn RÚV næsta árið
Aðalmenn:
- Ragnheiður Elín Árnadóttir
- Jón Ólafsson
- Brynjólfur Stefánsson
- Marta Guðrún Jóhannesdóttir
- Jóhanna Hreiðarsdóttir
- Guðlaugur G. Sverrisson
- Mörður Árnason
- Mörður Áslaugarson
- Björn Gunnar Ólafsson
Varamenn:
- Sjöfn Þórðardóttir
- Bragi Guðmundsson
- Jón Jónsson
- Dorothée Kirch
- Jón Skúlason
- Sigríður Valdís Bergvinsdóttir
- Margrét Tryggvadóttir
- Kristín Amalía Atladóttir
- Kolfinna Tómasdóttir