Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sóttist eftir því að taka við embætti innanríkisráðherra þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér. Hún sóttist einnig eftir því að verða menntamálaráðherra eftir síðustu kosningar en fékk, líkt og kunnugt er, hvorugt embættið. Þetta kemur fram í viðtali við Ragnheiði í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir Ragnheiður að hún hafi orðið fyrir vonbrigðum með niðurstöðuna. "Ef þú sækist eftir einhverju og telur þig hæfa til þess að gegna embættum og annar verður fyrir valinu þá finnst mér fáránlegt að segja að ég hafi verið að gera að gamni mínu. Ég sóttist eftir þessu af fullri alvöru og auðvitað varð ég fyrir vonbrigðum en það skilar manni litlu fyrir morgundaginn."
Í viðtalinu tjáir Ragnheiður sig líka töluvert um lekamálið, en Þórey Vilhjálmsdóttir, annar þáverandi aðstoðarmanna Hönnu Birnu, var tengdadóttir Ragnheiðar þegar málið hófst. Rangheiður segir það augljóst að Hanna Birna og aðstoðarmenn hennar hefðu getað gert margt öðruvísi í málinu. "Menn hefðu átt að taka á ýmsu með öðrum hætti heldur en gert var. Umboðsmaður Alþingis finnst mér hafa lokað þessu máli. Hanna Birna sagði fyrst af sér sem dómsmálaráðherra og segir síðan af sér sem innanríkisráðherra og axlar þannig pólitíska ábyrgð og gerði það með reisn. En hún hefur lært af þessu, Sjálfstæðisflokkurinn hefur lært af þessu og ég held bara að pólitíkin í heild sinni þurfi að endurskoða allt saman. Líka það sem kom fram í rannsóknarskýrslu Alþingis 2010."
Ragnheiður segir aðspurð að öll umræða í máli eins og lekamálinu sé óvægin. "Var hún óvægin gagnvart þeim? Þær eru þátttakendur í þessu ferli. Það var óhjákvæmilegt að þær [Hanna Birna og Þórey] með einhverjum hætti yrðu til umræðu og þau þrjú [Hanna Birna, Þórey og Gísli Freyr Valdórsson, hinn þáverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra] persónulega. Ráðherra kemur inn með tvo aðstoðarmenn sem eru á ábyrgð ráðherra, þeir eru aldrei á ábyrgð ráðuneytisins. Þannig að það gefur augaleið að þegar þú ert í slíkri stöðu, hvort heldur sem þú ert ráðherra eða aðstoðarmaður, og eitthvað kemur upp sem talið er stangast á við lög eða er ekki rétt, þá eru það þeir sem lenda í umfjölluninni. Og hver svo sem hún kann að vera, hvort sem það er lekamál eða eitthvað annað sem snertir borgarana eða einhver gjörð sem mælist illa fyrir, þá eru það ráðherrann og pólitískir aðstoðarmenn sem verða að svara gagnvart fjölmiðlum. Við sem erum í þessu verðum að gera okkur grein fyrir því að við verðum oft fyrir óvæginni umfjöllun fjölmiðla en það fylgir því að velja það að vera opinber persóna. Þú verður að gera ráð fyrir því. En þess heldur þarftu að gæta þín."
Hún telur þó ekki að tengslin við Þóreyju hafi orðið til þess að hún fékk ekki embætti innanríkisráðherra. "Nei. Þegar að því kemur voru sonur minn og Þórey skilin að skiptum. Þau stóðu í skilnaði. Hún er ekki lengur tengdadóttir mín. Ég hef enga trú á því að tengslin hafi ráðið för. Ég hef satt best að segja meiri trú á mínum formanni heldur en að nokkuð slíkt hafi verið ástæða þess."