Sjávarútvegsfyrirtækin Ísfélagið í Vestmannaeyjum og Rammi, sem er með höfuðstöðvar sínar í Fjallabyggð en landar einnig í Þorlákshöfn, hafa tilkynnt um sameiningu. Nýja félagið mun heita Ísfélagið hf. Stefán Friðriksson, núverandi framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja hf., mun stýra því með aðsetur í Vestmannaeyjum og Ólafur H. Marteinsson, núverandi framkvæmdastjóri Ramma hf., verður aðstoðarframkvæmdastjóri með aðsetur í Fjallabyggð.
Samkvæmt tilkynningu var sameiginleg velta fyrirtækjanna tveggja um 28 milljarðar króna í fyrra og búist sé við að heildaraflahlutdeild sameinaðs félags verði tæplega átta prósent af úthlutuðu aflamarki. Í Morgunblaðinu í dag er svo haft eftir Einari Sigurðssyni, stjórnarmanni í Ísfélaginu, að til standi að skrá sameinað félag á markað. Félagið
Fjölskylda Einars er langstærsti eigandi Ísfélagsins og verður stærsti eigandi sameinaðs félags í gegnum ÍV fjárfestingar ehf. með um tvo þriðju hlutafjár. Hún er líka stærsti eigandi Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Auk þess á fjölskyldan, sem leidd er af Guðbjörg Matthíasdóttur móður Einars, meðal annars hluti í ýmsum skráðum félögum, allt hlutafé í ÍSAM, einu stærstu innflutnings- og framleiðslufyrirtækis landsins og fjölmargar fasteignir.
Nýjar tölur um samþjöppun kvóta liggja ekki fyrir
Fiskistofa hefur ekki birt uppfærðar tölur um kvótastöðu stærstu útgerða landsins. Samkvæmt lista hennar sem birtur var í byrjun nóvember í fyrra héldur tíu stærstu útgerðir landsins á 67 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Bæði Ísfélagið og Rammi voru á þeim lista, en saman héldu útgerðirnar á 12,91 prósent af úthlutuðum kvóta. Að óbreyttu hefði það þýtt að sameinað fyrirtæki héldi á yfir tólf prósent af kvóta, en samkvæmt lögum má hópur tengdra aðila ekki halda á meira sem þeim mörkum nemur. Þau mörk eiga að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun í sjávarútvegi á meðal þeirra fyrirtæki sem fá að vera vörsluaðili fiskimiðanna, sem eru samkvæmt lögum þó ekki eign þeirra heldur þjóðarinnar.
Þrjú fyrirtæki fengu 56,5 prósent af þeim loðnukvóta sem var úthlutað. Ísfélag Vestmannaeyja fékk mest, 19,99 prósent. Síldarvinnslan og tengd félög komu þar á eftir með 18,5 prósent og Brim var í þriðja sæti með um 18 prósent.
Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vegna yfirstandandi loðnuvertíðar nemur 218.400 tonnum en tæplega 80 þúsund tonnum af þessu renna til norskra, færeyskra og grænlenskra skipa. Í hlut íslenskra útgerða féllu því tæplega 132 þúsund tonn í stað þeirra 686 þúsund tonna í fyrra sem íslenskar útgerðir máttu veiða í fyrra eftir skerðingar.
Þessi skerta loðnuveiði útskýrir því af hverju hlutfall Ísfélagsins í heildarkvóta lækkar skarpt milli ára, en útgerðin stundar fyrst og síðast uppsjávarveiðar á meðan að Rammi sérhæfir sig í bolfisksvinnslu.
Mikil samþjöppun í ár
Ef af skráningaráformum verður mun Ísfélagið verða þriðja útgerðarfyrirtækið sem skráð verður á markað. Fyrir eru Brim og Síldarvinnslan, sem hafa bæði verið í ytri stækkun á árinu sem er að líða. Brim keypti kvóta og togara af Útgerðarfélagi Reykjavíkur, fyrirtækis í eigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra og stærsta eiganda Brims, í nóvember á 12,4 milljarða króna.
Síldarvinnslan keypti útgerðarfyrirtækið Vísi í Grindavík af sex systkinum á upphæð sem átti að vera 31 milljarður króna þegar greint var frá viðskiptunum í sumar. Kaupverðið skiptist í yfirtöku skulda upp á ellefu milljarða króna, sex milljarða króna greiðslu í reiðufé og 14 milljarða króna sem greiðast með hlutabréfum. Samkeppniseftirlitið þurfti að samþykkja söluna áður en hún yrði frágengin og því gerðist það ekki fyrr en 1. desember síðastliðinn. Frá því að greint var frá áformunum hækkuðu hlutabréf í Síldarvinnslunni umtalsvert í verði, og verðmiðinn sömuleiðis hækkað, alls um 23 prósent. Virði þeirra hlutabréfa sem systkinahópurinn sem seldi Vísi fékk sem afgjald fyrir fyrirtækið jókst um 3,2 milljarða króna frá tilkynningu um viðskiptin, upp í 17,2 milljarða króna.
Þetta voru önnur risaviðskipti Síldarvinnslunnar á skömmum tíma. Í vor var tilkynnt um kaup á 34,2 prósent hlut í norska laxeldisfélaginu Arctic Fish Holding AS fyrir um 13,7 milljarða króna. Það félag á allt hlutafé í Arctic Fish ehf. sem er eitt af stærstu laxeldisfyrirtækjum á Íslandi og rekur eldisstöðvar á Vestfjörðum þar sem félagið er með rúmlega 27 þúsund tonna leyfi fyrir eldi í sjó.
Síldarvinnslan velti um 30 milljörðum króna í fyrra. Markaðsvirði fyrirtækisins um síðustu áramót var um 186 milljarðar króna. Miðað við þá stöðu má ætla að virði hins sameinaða Ísfélags, þrátt fyrir skertan loðnukvóta, fari auðveldlega yfir eitt hundrað milljarða króna. Eigendur þess munu því geta innleyst mikinn hagnað þegar þeir selja hluti sína í sameinuðu Ísfélagi í aðdraganda skráningar.