Þýsk yfirvöld rannsaka nú hvort Coutts, einkabankahluta Royal Bank of Scotland (RBS), hafi hjálpað viðskiptavinum sínum að svíkja undan skatti í gegnum útibú sitt í Sviss. Bankinn greindi frá þessu í dag í ársskýrslu sinni og segist vera í samstarfi við yfirvöld vegna málsins.
Bandarísk yfirvöld hafa þegar hafið rannsókn á því hvort bankinn hafi hjálpað bandarískum ríkisborgurum við skattaundanskot. Bankaútibú í Sviss eru undir smásjánni eftir uppljóstranir um starfsemi HSBC bankans þar og leka á gögnum um einstaklinga og félög sem komu peningum undan skatti með því að geyma þá í Sviss.
Advice from the Queen's bank on how to shelter wealth in Switzerland #Coutts pic.twitter.com/I87m9DNUou
— Juliette Garside (@JulietteGarside) February 26, 2015
Auglýsing
Juliette Garside, blaðamaður Guardian, birtir þetta skjáskot af heimasíðu bankans á Twitter.
Royal Bank of Scotland er í 79 prósenta eigu skattborgara í Bretlandi eftir að ríkið tók bankann yfir í fjármálahruninu. Þá voru 45 milljarðar punda settir inn í bankann. Stjórnendur hans höfðu þegar ákveðið að alþjóðlegi hlutinn af Coutts yrði seldur. Ross McEwan, forstjóri RBS, sagði fyrr í dag að fyrirtækið yrði selt vegna þess að það væri ekki hagnaður af því og að einkabankar hefðu verið of lengi að hreinsa upp eftir sig. Hann sagði bankann ætla að taka mjög hart á málinu ef í ljós kemur að viðskiptavinum hafi verið hjálpað við skattaundanskot. Þessi mál væru tekin mjög alvarlega enda væri það starfsemi af þessu tagi sem hefði komið óorði á banka.
RBS tapaði 3,5 milljörðum punda á síðasta ári, sem eru um 715 milljarðar króna. Það er þó skárra en árið á undan þegar tapið nam 9 milljörðum punda. Bankinn hefur skilað tapi sjö ár í röð. Þrátt fyrir þetta námu bónusar til starfsfólks 421 miljónum punda á síðasta ári.
Coutts bankinn er einna helst þekktur fyrir að vera banki Elísabetar Bretadrottningar. Viðskiptavinalistinn er virðulegur, og fólk verður að eiga meira en eina milljón punda, eða um 200 milljónir íslenskra króna, til þess að mega vera í viðskiptum.