Hröð aukning fjármagnstekna í fyrra gerði það að verkum að ráðstöfunartekjur þeirrar tíundar landsmanna sem höfðu hæstu tekjurnar, og hafa helst tekjur af fjármagni, jukust um tólf prósent á föstu verðlagi. Restin af landsmönnum, 90 prósent, juku sínar ráðstöfunartekjur á raunvirði um fjögur prósent. Því jukust ráðstöfunartekjur, laun að frádregnum sköttum og öðrum lögbundnum gjöldum, efstu tíu prósentanna þrefalt á við aðra þegar þær eru reiknaðar á föstu verðlagi.
Þetta kemur fram í umsögn BHM um fjárlagafrumvarpið sem skilað var inn til fjárlaganefndar nýverið.
Þar segir ennfremur að þessi þróun sé framhald af lengri sögu og að fjármagnstekjur hafi aukist um 120 prósent að raunvirði á síðasta áratug. „Á sama tíma jukust atvinnutekjur í íslenska hagkerfinu aðeins um 53 prósent. Flest bendir til að nokkur kjaragliðnun hafi átt sér stað milli launafólks og fjármagnseigenda á áratugnum 2011-2021 og hún hafi aukist til muna á árunum 2020 og 2021.“
Kaupmáttur meðaltals fjármagnstekna hefur aukist um 85 prósent á sama tíma en um 31 prósent í tilfelli meðaltals atvinnutekna.
Efsta tíundin tók til sín 81 prósent fjármagnstekna
Fjármagnstekjur eru þær tekjur sem einstaklingar hafa af eignum sínum. Þær eru til að mynda vextir, arður, söluhagnaður eða leigutekjur af lausafé og af útleigu á fasteignum. Þeir sem fá mestar fjármagnstekjur á Íslandi eru því sá hópur einstaklinga sem á flest hlutabréf og flestar fasteignir. Sá hópur sem hefur sankað að sér flestum eignum.
Sá hópur sem jók fjármagnstekjur sínar mest í fyrra var allra tekjuhæsta tíund landsmanna. Kjarninn greindi frá því í júlí að í greiningu á álagningu opinberra gjalda einstaklinga eftir tekjutíundum, sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi 22. júní síðastliðinn, hafi komið fram að þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar fjármagnstekjur á síðasta ári hafi tekið til sín 81 prósent allra fjármagnstekna einstaklinga á árinu 2021.
Girða þurfi fyrir tekjutilflutning
BHM segir í umsögn sinni að það þurfi að auka sanngirni í skattkerfinu. Frá 2019 hafi undirliggjandi afkoma verið veikt kerfisbundið vegna breytingar á tekjuskatti einstaklinga, lækkunar bankaskatts og tryggingagjalds, hækkunar á frítekjumarki fjármagnstekna og hækkunar á skattfrelsismarki erfðafjárskatts. Þá hafi ekki verið vilji hjá stjórnvöldum til að taka á undirliggjandi afkomuhalla.
Bandalagið vill einnig girða fyrir tekjutilflutning milli launa og fjármagnstekna. „Þegar tekið hefur verið tillit til skatts á hagnað lögaðila og síðan skatts á fjármagnstekjur er heildarskattlagning um 38 prósent á móti 46 prósent í kerfi tekjuskatts launa. Um leið er ekki greitt tryggingargjald af útgreiddum arði. Þessu þarf að breyta. Hin norræna nálgun um tvíþætt skattkerfi með hlutleysi í skattlagningu fjármagns og vinnuafls ætti að vera leiðarljós í þessum efnum. Sérstaklega í ljósi kjaragliðnunar milli launafólks og fjármagnseigenda.“
Þá telur BHM að marka þurfi langtímasýn um fjármögnun heilbrigðiskerfisins og sveitarfélagastigsins. „Fullfjármagna þarf sveitarfélagastigið og sérstaklega eftakast á að leiðrétta skakkt verðmætamat kvennastarfa á íslenskum vinnumarkaði.“
Vilja hækka bankaskatt á ný og endurvekja gistináttaskatt
Til að auka tekjur ríkissjóðs, og bæta undirliggjandi afkomu og borga fyrir ofangreindar aðgerðir, telur BHM meðal annars að draga ætti varanlega lækkun bankaskatts til baka og að innleiða eigi á ný gistináttaskatt. Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, svokallaður bankaskattur, var lækkaður árið 2020 úr 0,376 í 0,145 prósent á heildarskuldir þeirra banka sem skulda yfir 50 milljarða króna. Alls borga fimm fjármálafyrirtæki skattinn en þorra hans greiða stóru bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki. Fyrir vikið lækkaði álagður bankaskattur sem ríkissjóður lagði á bankana um 6,1 milljarði króna í 4,8 milljarðar króna. Það er lækkun upp á 56,2 prósent. Áætlað er að hann verði 5,9 milljarðar króna á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.
Gistináttaskattur var fyrst tekinn upp árið 2012 og hefur þann tilgang að afla tekna til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða. Skatturinn er nú 300 krónur fyrir hverja selda einingu næturgistingar á Íslandi. Áður en kórónuveirufaraldurinn skall á í upphafi árs 2020 hafði verið gert ráð fyrir því að skatturinn skilaði yfir 1,2 milljörðum króna í ríkissjóð það ár.
En svo kom kórónuveirufaraldurinn og skatturinn var felldur niður tímabundið í einum af fyrstu aðgerðapökkunum til þess að mæta efnahagslegum áhrifum veirunnar. Skatturinn átti hins vegar að taka gildi á ný þann 1. janúar 2022. Því var þó frestað til 2024 við fjárlagagerðina í fyrra.
Þá telur BHM að horfa beri til góðrar afkomu atvinnugreina, til dæmis í sjávarútvegi, byggingarstarfsemi og verslun til að bregðast við lækkandi tekjum.