Rebekah Brooks snýr í næstu viku aftur til fjölmiðlasamsteypu Ruperts Murdoch, News Corp. Hún verður forstjóri News UK, sem gefur út blöðin Times, Sunday Times og the Sun, og hét áður News International. Þetta var staðfest í dag.
Brooks var einn aðalleikandinn í símhlerunarhneykslinu sem skók breskt samfélag árið 2011. Hún hætti störfum hjá News Corp. í kjölfar hneykslisins, en ár er liðið síðan hún var sýknuð af ákærum tengdum málinu.
Í síðustu viku var þó tilkynnt að saksóknarar í Bretlandi hefðu nú til skoðunar hvort News UK samsteypan verði ákærð og krafin skaðabóta vegna málsins.
Rebekah Brooks varð yngsti ritstjóri í sögu breskra dagblaða þegar hún tók við ritstjórinni á News of the World árið 2000. Hún stjórnaði blaðinu til ársins 2003, og varð svo fyrsti kvenkyns ritstjóri the Sun frá 2003 til 2009. Þá varð hún forstjóri News International, en sagði sem fyrr segir upp störfum árið 2011 í kjölfar þess að símhlerunarmálið náði hámarki.
Blaðamenn á News of the World hleruðu síma fjölda fólks til þess að afla sér frétta, en þetta var gert meðan Brooks var ritstjóri þar. Blaðamaður og einkaspæjari voru dæmdir í fangelsi fyrir þessa iðju árið 2006, en þá höfðu þeir hlerað síma hjá konungsfjölskyldunni. Talið var að þetta hefði aðeins verið gert við frægðarfólk.
Árið 2011 birti Guardian ásakanir þess efnis að árið 2002, þegar Brooks var ritstjóri News of the World, hefði blaðið brotist inn í talhólfið hjá ungri stúlku, Milly Dowler. Dowler var týnd á þessum tíma og fannst síðar myrt. Ætlunin var að komast í skilaboð sem foreldrar hennar höfðu skilið eftir í talhólfinu.
Allt varð þetta til þess að ákveðið var að leggja News of the World niður og Brooks sagði upp störfum sínum um mitt ár 2011. Nokkrum dögum síðar var hún handtekin vegna símhlerana og vegna gruns um að hafa mútað lögreglumönnum.