Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var dæmdur í sex mánaða fangelsi í Marple-málinu í morgun vegna þess að dómurinn var hegningarauki við fimm og hálfs árs dóm sem hann afplánar nú þegar vegna Al-Thani málsins. Refsiramminn fyrir fjárdráttarbrot er sex ár að hámarki og því hefur refsiramminn verið fylltur með hálfs árs dómnum í morgun. RÚV vekur athygli á þessu.
Það sama gildir um Magnús Guðmundsson, sem fékk átján mánaða dóm í málinu í morgun, sem fyllir refsirammann, en hann afplánar fjögurra og hálfs árs dóm vegna Al-Thani málsins Dómurinn sem var kveðinn upp yfir Hreiðari í morgun er sá þriðji sem hann hlýtur á átta mánuðum. Tveir þeirra eiga þó væntanlega eftir að fara fyrir Hæstarétt.
Þriðja málið er markaðsmisnotkunarmálið svokallaða, en þar var Magnús sýknaður og Hreiðari var ekki gerð sérstök refsing til viðbótar. Í málinu fór saksóknari fram á að refsing yrði þyngri en refsiramminn, sem er heimilt þegar um síbrot er að ræða. Ekki var orðið við því.
Hreiðar Már var ákærður fyrir fjárdrátt og umboðssvik í Marple-málinu. Magnús var ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum. Málið, eins og embætti sérstaks saksóknara lagði það upp, snýst um tilfærslu á um átta milljörðum króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple Holding, í eigu Skúla Þorvaldssonar fjárfestis, án þess að lögmætar viðskiptalegar ákvarðanir lægju þar að baki. Skúli hlaut sex mánaða dóm í málinu.