Klukkan 10:38 að staðartíma barst neyðarlínunni í Bandaríkjunum hringing frá dauðskelkuðum nemanda í Umpqua College í bænum Roseburg í suðurhluta Oregon ríkis. Síðan barst annað símtal fljótlega á eftir. Svo rigndi þeim inn. Örvænting. Hræðsla. Ringulreið. Bjargarleysi. Nemendur og kennarar að upplifa sína verstu martröð.
Tvítugur maður hóf skothríð í skólanum með þeim afleiðingum að tíu létust og í það minnsta sjö slösuðust, fjórir af þeim alvarlega. Eftir stuttan skotbardaga við lögreglu lést hann eftir að hafa fengið í sig byssukúlur.
Það var bugaður maður sem birtist bandarísku þjóðinni í sjónvarpsávarpi, skömmu eftir atburðinn. Það var forseti Bandaríkjanna, Barack Obama. Frá því að hann varð forseti hafa tuttugu og fjórar blóðugar tilefnislausar skotárásir átt sér stað á óbreytta borgara, innan skólaveggja, í bíósölum, verslunarmiðstöðum og á því sem kallast opinber vettvangur. Í öllum árásunum hafa fleiri en einn látið lífið.
Obama hefur á sínum ferli sem forseti gengið lengst forseta í því að fordæma byssumenninguna, ef svo má að orði komast, sem því miður er hluti af fjölbreyttu samfélagi Bandaríkjanna. „Við verðum að horfast í augu við það, að árásir sem þessar eiga sér ekki stað í neinu öðru þróuðu ríki,“ sagði Obama í júní, eftir blóðuga árás á kirkju í Charleston, þar sem níu létust.
https://www.youtube.com/watch?v=Dym80Ujeebc
Óhætt er að segja að tölurnar sýni að eitthvað sé að í Bandaríkjunum, sem ekki fyrirfinnst í öðrum þróuðum ríkjum. Fyrir hverja milljón íbúa eru framin 29,7 morð með skotvopnum í Bandaríkjunum á ári, en til samanburðar þykir hátt ef hlutfallið fer yfir tvö mörð. Í Þýskalandi er meðaltalið 1,9 morð með skotvopnum fyrir hverja milljón íbúa. Miklar áhyggjur hafa verið um gang mála í Finnlandi eftir að meðaltalið fór í 4,4 morð með skotvopni fyrir hverja milljón íbúa. Það þykir alltof hátt, í alþjóðlegum samanburði. Samt þarf það hlutfall að meira en sexfaldast til þess að vera nærri venjulegu meðalári í Bandaríkjunum. Margar aðrar staðreyndir eru sláandi, þegar þessar tölur eru skoðaðar. Það deyja til dæmis mun fleiri á hverju ári vegna byssuglæpa í Bandaríkjunum heldur en deyja vegna hryðjuverkaárása í heiminum öllum á hverju ári.
Það er hægt að tiltaka ýmis atriði sem skýra hvers vegna þessi ótrúlega mörgu morð eru framin, en því miður eiga þau það öll sameiginlegt að vera ágiskanir. Skýringarnar eru ekki tæmandi eða fastar í hendi. Ef allt er „eðlilegt“ mun Obama því miður birtast fljótlega aftur, gjörsamlega niðurbrotinn, og tilkynna fjölskyldum saklausra barna að hugur bandarísku þjóðarinnar sé hjá þeim. Og að stjórnmálamenn verði að fara horfa í eigin barm, og spyrja hvort það geti mögulega verið, að eitthvað í lögum og reglum í Bandaríkjunum, geti hindrað þessa hrikalegu atburði.