Laganefnd Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ) kemst að þeirri niðurstöðu að reglur Alþjóða frjálsíþróttasambandsins hafi verið brotnar í Reykjavíkurmaraþoninu, sem fram fór 23. ágúst síðastliðinn, þegar hjólreiðamenn hjóluðu á undan hlauparanum Arnari Péturssyni í hlaupinu. Kjarninn greindi fyrstur fjölmiðla frá málinu í september á síðasta ári. Brotið er hins vegar látið óátalið vegna ágalla við framkvæmd hlaupsins.
Arnar kom fyrstur Íslendinga í mark í hlaupinu og var krýndur Íslandsmeistari karla í maraþoni í kjölfarið. Hlauparinn Pétur Sturla Bjarnason, sem varð annar í endamarkið, kærði úrslit hlaupsins til yfirdómnefndar Reykjavíkurmaraþonsins þar sem hjólreiðamenn bæði fylgdu Arnari eftir og hjóluðu á undan honum um þrjá fjórðu hluta hlaupaleiðarinnar.
Sakaður um svindl í hlaupinu
Í kæru málsins var þess krafist að þátttökuréttur Arnars yrði ógiltur og hann sviptur titlinum, með vísan í 10. grein reglna Reykjavíkurmaraþons, þar sem segir: „Hlaupabrautin er eingöngu ætluð keppendum. Ekki er heimilt að fylgja hlaupurum gangandi, hlaupandi, á hjóli eða öðrum farartækjum (undanþága fyrir fylgdarmenn fatlaðra). Það er á ábyrgð þátttakenda að vísa frá þeim sem fylgja.“ Þá segir í 18. grein reglnanna: „Brot á ofangreindum reglum ógilda þátttökurétt í hlaupinu.“
Þrátt fyrir að viðurkenna í úrskurði sínum að reglur hlaupsins hafi verið brotnar, vísaði yfirdómnefnd Reykjavíkurmaraþonsins kærunni frá. Ekki þótti sannað að Arnar hafi notið liðsinnis hjólreiðamannanna. Dómstóll Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) sýknaði Arnar Pétursson af kæru málsins með vísan í reglur Alþjóða frjálsíþróttasambandsins um götuhlaup, sem væru reglum Reykjavíkurmaraþonsins æðri, og áfrýjunardómstóll sambandsins tók sýknudóminn ekki til efnislegrar meðferðar vegna ágalla við kærumeðferð. Í fyrrgreindu áliti laganefndar FRÍ, er litið svo á að málið hafi ekki hlotið efnislega nðurstöðu innan íþróttahreyfingarinnar sökum þess.
Þó dómstólar ÍSÍ fari með deilumál sem koma upp innan sambandsins, getur stjórn FRÍ úrskurðað um mál er varða keppnisreglur. Pétur Sturla Bjarnason hefur vísað kæru málsins til stjórnar FRÍ, og í áliti laganefndar sambandsins er því beint til stjórnarinnar að hún úrskurði efnislega um kæruna.
Í reglum Alþjóða frjálsíþróttasambands um götuhlaup er kveðið á um skýrt bann við hraðastjórnun frá utanaðkomandi, og að keppandi sem njóti aðstoðar skuli fá viðvörun frá dómara og loks útilokun verði endurtekning á umræddu broti.
Myndbandið hér að neðan var á meðal gagna sem fylgdu upphaflegri kæru málsins.
https://vimeo.com/105774205
Óátalið brot vegna ágalla við framkvæmd hlaupsins
Í áliti laganefndar FRÍ segir: „Laganefnd telur eftir að hafa farið yfir fyrirliggjandi gögn að það athæfi sem kært er teljist aðstoð í skilningi reglu 144. Laganefnd telur hins vegar einnig að ekki sé hægt að beita viðurlögum gegn slíku broti eftir að keppni lýkur, sérstaklega í ljósi þess að viðkomandi keppandi fékk ekki aðvörun frá dómara á meðan á keppni stóð, sem er skilyrði brottvísunar úr keppni eins og að framan greinir.“
Frá árinu 2003 hefur umsjón Reykjavíkurmaraþons verið í höndum Íþróttabandalags Reykjavíkur. Sjálfstæðum Reglum hlaupsins hefur verið breytt síðan síðasta hlaup fór fram, þar sem bætt hefur verið inn í að hlaupið heyri undir áðurnefndar reglur Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins.
Laganefnd FRÍ telur að nauðsynlegt sé endurskoða regluverkið í kringum framkvæmd Reykjavíkurmaraþons, í ljósi maraþonmálsins svokallaða. „Þær keppnisreglur sem gilda eiga verða að vera settar af FRÍ, þá annað hvort með því að bæta ákvæðum við gildandi reglugerð um Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum, utanhúss, eða með því að setja sérstaka reglugerð um framkvæmd þessa hluta mótsins.“
Þá kallar laganefndin loks eftir því að eftirlit með framkvæmd hlaupsins verði eflt. „Laganefnd telur einnig í ljósi málsins að rétt sé að ganga eftir því við hvern þann sem tekur að sér framkvæmd maraþonhluta Meistaramóts Íslands að framkvæmd mótsins verði í samræmi við það sem keppnisreglur gera ráð fyrir, meðal annars hvað varðar fjölda dómara og staðsetningu þeirra.“
Eins og Kjarninn greindi frá á þriðjudaginn hefur endasprettur Arnars Péturssonar í Víðavangshlaupi ÍR, sem fram fór sumardaginn fyrsta, vakið mikla umræðu innan hlaupasamfélagsins. Arnar sigraði hlaupið naumlega en á myndbandi sem RÚV birti, má sjá hvernig hann styttir sér leið á endasprettinum með því að hlaupa yfir vegkant, og nær þar með forskoti á keppinaut sinn. Það meinta brot var sömuleiðis látið óátalið vegna ágalla við framkvæmd Víðavangshlaupsins, en ÍR hefur lofað að gera bragabót í þeim efnum í framtíðinni.
https://vimeo.com/126132945