Alls hafa um 3.300 manns boðað komu sína á mótmæli undir yfirskriftinni „Ríkisstjórnina burt – Vér mótmælum öll“ sem fyrirhuguð eru á Austurvelli á morgun, þjóðhátíðardegi Íslendinga. Mótmælin eiga að hefjast klukkan 11 og standa á meðan að á hátíðarræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra stendur.
Hin boðuðu mótmæli hafa vakið upp hörð viðbrögð víða. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, spyr í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni hvað sé að fólki sem ætlar að mótmæla á 17. júní á Austurvelli og hvort þessu fólki sé „alveg nákvæmlega sama um börnin sem eru að skemmta sér þennan dag. Vona að þetta fólk geti rifið hausinn út úr rassgatinu á sér bara þennan eina dag.“
Hvað er eiginlega að fólki sem ætlar að mótmæla 17. júní á Austurvelli er þessu fólki alveg nàkvæmlega sama um börnin...Posted by Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir on Tuesday, June 16, 2015
Auglýsing
Á meðal þeirra sem skilja eftir ummæli við uppfærslu hennar er Gunnlaugur Ingvarsson, stjórnarmaður í samtökunum Heimssýn, sem berjast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hann biður fólk vinsamlegast láta 17. júní vera og óvirða þennan hátíðardag þjóðarinnar ekki með mótmælum. „Þessi Ríkisstjórn var lýðræðislega kosinn til valda. Stjórnarflokkarnir eru með sterkan þingmeirhluta sem var lýðræðislega kosinn af meirhluta kjósenda í lögbundnum og löglegum kosningum almennings. Fyrrverandi ríkisstjórn vinstri flokkanna var beinlínis kosinn burt. Sættið ykkur við það og gefið réttkjörnum stjórnvöldum ráðrúm og frið til þess að framfylgja stefnumálum sínum og þar með framgangi lýðræðisins. Ykkar tími til að ná völdum kemur kannski aftur eftir tvö ár en hann er ekki núna. Síðasta Ríkisstjórn setti líka lög sem bönnuðu verkföll og það eftir aðeins nokkurra daga verkfall flugvirkja. Vinsamlega virðið lýðræðið !“
Icesave, ESB og skuldum heimila mótmælt árið 2009
Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem mótmælt er á þjóðhátíðardaginn. Árið 2009 mætti hópur mótmælenda á Austurvöll á 17. júní. Hópurinn, sem var að mótmæla Icesave-samningunum og fyrirhugaðri umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, truflaði ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra með hrópum og framíköllum, að því er kemur fram í frétt mbl.is um málið.
Þennan sama dag boðuðu Hagsmunasamtök heimilanna til friðsamra mótmæla klukkan 15. Í frétt á heimasíðu samtakanna vegna þeirra sagði að um setuverkfall ætti að vera um að ræða. „Allir setjast niður hvar sem að þeir eru; á götuna, gangstéttina, hvar sem að þeir verða kl. 15. Fjölskyldurnar setjast niður saman með börnunum sínum, allir haldast í hendur. Þúsundir íslenskra fjölskyldna munu missa heimili sín á næstu vikum. Icesave skuldir fjárglæpamanna hvíla yfir okkur. Aðgerðirnar verða friðsamlegar og táknrænar fyrir samstöðu allra íslendinga.“
Lögreglan hafði undirbúið sig vel fyrir mótmæli á Austurvelli þennan fyrsta þjóðhátíðardag eftir hrun og fjölmennt lögreglulið var við öllu búið. Utan framíkallanna hafi mótmælin þó farið vel fram.