Í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið, sem samanstendur af nefndarmönnum Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, er lagt til að einum milljarði króna verði bætt við þegar ákveðin útgjöld til að mæta kostnaði vegna fjölgunar umsækjenda um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun gerir ráð fyrir að flóttafólk sem kemur hingað til lands í leit að vernd verði 4.500 í ár. Miðað við óbreytta stöðu í Úkraínu og óbreytta stefnu gagnvart Venesúela þá er áætlað að fjöldi umsókna 2023 verði að lágmarki 4.900.
Um er að ræða framlög til að standa undir þjónustu við flóttafólkið, sem Vinnumálastofnun fer með. Samkvæmt stofnuninni er áætlaður heildarkostnaður 2022 vegna þjónustunnar um 4.180 milljónir króna í ár. Í nefndaráliti meirihlutans segir að miðað við að fjöldinn vaxi í að lágmarki 4.900 á næsta ári verði heildarkostnaður 2023 verði um 3.200 milljónir króna sem er um 23 prósent minna en áætlun 2022 segir til um. „Ástæðan er m.a. sú að á árinu 2022 hefur verið fjárfest töluvert í einskiptiskostnaði vegna búsetuúrræða sem nýtast áfram á árinu 2023, svo sem ýmsum húsbúnaði, rúmum og fleiru.“
Þegar Vinnumálastofnun tók við þjónustu við flóttafólk um mitt ár 2022 voru búsetuúrræðin sem þeim stóð til boða á Íslandi þrjú. Í október hafði þeim fjölgað í 17, en hvert búsetuúrræði getur hýst mismunandi fjölda umsækjenda.
Tvær stjórnsýslulegar ákvarðanir sitjandi ríkisstjórnar
Í nefndaráliti meirihlutans segir að í lok september á þessu ári höfðu 3.238 manns sótt um alþjóðlega vernd eða nærri fjórfalt fleiri en þeir sem sóttu um árið áður. Fjölgunina má að stærstum hluta skýra með fólki sem er að flýja stríðsástand í Úkraínu, en um 60 prósent þeirra sem sótt hafa um vernd koma þaðan. Þá hafa um 20 prósent komið frá Venesúela. Flóttafólk frá þessum tveimur löndum fær svo til allt vernd með skömmum fyrirvara sem byggist á stjórnsýslulegum ákvörðunum.
Þær eru tvær og voru báðar teknar af þeirri ríkisstjórn sem nú situr að völdum. Önnur er frá árinu 2018 en þá var ákveðið að Útlendingastofnun veitti umsækjendum um alþjóðlega vernd frá Venesúela viðbótarvernd með vísan til almennra aðstæðna í heimaríki óháð einstaklingsbundnum aðstæðum hvers umsækjanda. Reynt var að breyta þessari framkvæmd frá 1. janúar 2022 til að draga úr komu þessa fólks. Kærunefnd útlendingamála felldi hins vegar úrskurð í júlí síðastliðnum þar sem stóð að ástandið í Venesúela hefði ekkert lagast frá því að upphaflega ákvörðunin var tekin, og raunar farið versnandi „og að umfang og alvarleiki glæpa gegn mannkyni hafi aukist.“ Bætt ástand í Venesúela gat því ekki verið rökstuðningur fyrir því að synja umsækjendum um viðbótarvernd hér á landi.
Hin var tekin 4. mars á þessu ári þegar Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ákvað að virkja ákvæði útlendingalaga sem fól í sér að móttaka flóttamanna frá Úkraínu hérlendis myndi ná til sömu skilgreindu hópa og þeirra sem Evrópusambandið hafði ákvarðað. „Þessi aðferð er fyrst og fremst til þess að geta veitt þeim sem flýja Úkraínu skjóta og skilvirka aðstoð, nánar tiltekið tímabundna vernd, án þess að móttakan og aðstoðin verði verndarkerfi Íslands ofviða.“