Rekstrartekjur Kjarnans jukust um 37 prósent á síðasta ári og voru tæplega 107 milljónir króna. Frá árinu 2019 hafa þær vaxið um 80 prósent. Vöxturinn er fyrst og síðast vegna þess að greiðslum í Kjarnasamfélagið hefur fjölgað og meðalupphæð þeirra hækkað. Þá hafa tekjur af áskriftum að Vísbendingu og enskra fréttabréfa sem Kjarninn á og rekur aukist og tekjur vegna auglýsingasölu tvöfölduðust milli ára.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársreikningi Kjarnans vegna ársins 2021 sem samþykktur var á stjórnarfundi þriðjudaginn 30. ágúst síðastliðinn.
Rekstrargjöld hækkuðu um 32 prósent og voru 111 milljónir króna í fyrra. Þar er fyrst og síðast um aukinn launakostnað að ræða vegna þess að fjöldi ársverka jókst úr 6,2 árið 2020 í 9,3 á árinu 2021 og vegna samningsbundinna launahækkana sem tóku gildi á tímabilinu. Alls jókst launakostnaður Kjarnans um 35 prósent en laun og launatengd gjöld eru 85 prósent af öllum rekstrargjöldum síðasta árs. Er það í samræmi við þá stefnu Kjarnans að ráðstafa auknum tekjum í að efla starfsemi fjölmiðilsins með því að ráða fleira starfsfólk á ritstjórn hans.
Alls nam tap af rekstri 4,9 milljónum króna en er 1,2 milljónum króna minna tap en árið 2020.
Orðinn níu ára og lestur aldrei meiri
Kjarninn fékk fjölmiðlastyrk úr ríkissjóði upp á 14,4 milljónir króna á síðasta ári, en alls var 389 milljónir króna úthlutað í slíka á árinu 2021. Í hlut Kjarnans féll því 3,7 prósent af heildarupphæðinni sem var úthlutað. Þrjú stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtæki landsins, Árvakur, Sýn og Torg, fengu samtals 244 milljónir króna eða 63 prósent af þeim styrkjum sem var úthlutað.
Kjarninn var stofnaður árið 2013 og birtist lesendum fyrst í ágúst það ár. Fjölmiðillinn fagnar því níu ára afmæli um þessar mundir. Kjarninn hefur hlotið tilnefningu til Blaðamannaverðlauna á hverju ári sem hann hefur starfað. Alls hafa blaðamenn hans hlotið verðlaunin fjórum sinnum á því tímabili, síðast í ár fyrir umfjöllun um Skæruliðadeild Samherja. Hann hlaut verðlaunin einnig árið 2021 fyrir umfangsmikla umfjöllun um brunann á Bræðraborgarstíg.
Lestur Kjarnans var meiri í fyrra en hann hefur nokkru sinni verið áður og var 20 prósent meiri en hann var árið 2019. Það sem af er árinu 2022 hefur lestur aukist frá því sem hann var á síðasta ári.
Eignarhald Kjarnans miðla:
- Hg80 ehf., eigandi Hjálmar Gíslason 18.39%
- Miðeind ehf., eigandi Vilhjálmur Þorsteinsson 18.02%
- Birna Anna Björnsdóttir, 11.65%
- Magnús Halldórsson, 9.47%
- Þórður Snær Júlíusson, 8.04%
- Hjalti Harðarson, 6.10%
- Fagriskógur ehf., eigandi Stefán Hrafnkelsson, 3.75%
- Milo ehf., eigendur Guðmundur Hafsteinsson og Edda Hafsteinsdóttir, 3.75%
- Vogabakki ehf., eigendur Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson, 5.02%
- Charlotta María Hauksdóttir og Úlfar Erlingsson, 7.50%
- Birgir Þór Harðarson, 1.91%
- Jónas Reynir Gunnarsson, 1.91%
- Fanney Birna Jónsdóttir, 0.75%