Bæjarráð Reykjanesbæjar synjaði á dögunum tónlistarhátíðinni All Tomorrow Parties (ATP) um fjárhagsstyrk vegna hátíðarinnar, sem haldin hefur verið undanfarin tvö sumur að Ásbrú á Miðnesheiði. Tónleikahaldarar óttast að hátíðin eigi sér ekki framtíð til langframa án fjárhagsstyrkja frá bæjarfélaginu og ríki.
Í bókun bæjarráðsins vegna styrkbeiðnar tónleikahaldara segir í fundargerð: „Bæjarráð telur jákvætt að menningarstarfsemi á borði ATP hátíðarinnar haldi áfram og vill leita leiða til að svo megi verða áfram. Bæjarráð getur hins vegar ekki orðið við beiðni um beint fjárframlag úr bæjarsjóði en styður að hátíðin verði áfram styrkt í gegnum sameiginlega sjóði á svæðinu eins og undanfarin ár.“
Miðasala undir væntingum
Kjarninn hefur undir höndum erindi forsvarsmanns ATP til bæjarráðs Reykjanesbæjar þar sem óskað er eftir fjárhagsstyrk til handa verkefninu. Tónlistarhátíðin ATP Iceland var fyrst haldin hér á landi í fyrra, og svo aftur síðasta sumar við góðan orðstír. Í erindinu kemur fram að gestir hátíðarinnar árið 2013 hafi verið um 2000 talsins, þar af hafi um þrettán hundruð þeirra keypt sér miða að hátíðinni, og þeirra á meðal hafi verið um 300 erlendir gestir. Í ár hafi gestafjöldinn svo tvöfaldast þegar um 4000 manns sóttu hátíðina, en þar af voru um 3300 seldir miðar og um 2000 þeirra til erlendra gesta.
Upp er komin erfið staða þar sem margir af birgjum hátíðarinnar hafa ekki fengið gert upp við sig og gerir það hátíðinni erfitt fyrir að halda áfram.
Í áðurnefndu erindi segir að þrátt fyrir að hátíðirnar hafi heppnast eins og best verði á kosið, standi hún ekki vel fjárhagslega. Heildarkostnaður hennar sé vel yfir 100 milljónum króna, og á hvorugri hátíðinni hafi miðasala staðið undir væntingum. Samkvæmt erindinu er áætlað heildartap af síðastliðnum tveimur hátíðum 37 til 40 milljónir króna. Þá segir orðrétt í erindinu: „Upp er komin erfið staða þar sem margir af birgjum hátíðarinnar hafa ekki fengið gert upp við sig og gerir það hátíðinni erfitt fyrir að halda áfram. Ég, undirritaður, hef frá því að verkefnið hófst skuldsett sjálfan mig og fjölskyldu með fulla trú á verkefninu sem ég taldi að myndi standa undir sér og auka hróður heimabæjarins. Auk þess hef ég notið aðstoðar frá ættingjum, samstarfsaðilum og þá hafa flestir birgjarnir sýnt mér og verkefninu ómælda þolinmæði - sem ég er þó hræddur um að sé nú á þrotum.“
Undir erindirð skrifar Tomas Young, framkvæmdastjóri ATP Iceland, sem jafnframt er framkvæmdastjóri Hljómahallarinnar í Reykjanesbæ. Hann vildi ekki tjá sig um málið við Kjarnann, þegar eftir því var leitað, vegna starfa sinna fyrir Reykjanesbæ. Hann sagði þó, að synjun bæjarfélagsins á fjárstyrksbeiðninni breyti engu um áform ATP fyrir tónlistarhátíðina sem fyrirhuguð sé á næsta ári.
Frá tónleikum Interpol á síðustu tónlistarhátíð ATP.
Margvísleg mælanleg og ómælanleg áhrif fyrir bæjarfélagið
Þá eru rakin mælanleg og ómælanleg áhrif tónlistarhátíða á borð við ATP í erindinu. Ómælanleg áhrif séu til að mynda hvernig tónlistarhátíðir geta aukið hróður ákveðinna svæða, eins og í tilvikum tónlistarhátíðanna Aldrei fór ég Suður á Ísafirði, Bræðslunnar á Borgarfirði Eystra og Hróarskelduhátíðarinnar í Hróarskeldu. Þá eru einni nefnd hagræn áhrif tónlistarhátíða út frá tekjum sem samfélög hafa vegna þeirra.
Ef þessar niðurstöður eru heimfærðar á gestafjölda ATP Iceland og lengd hátíðarinnar má gera ráð fyrir að heildarvelta erlendra gesta sé um 240 m.kr. á svæðinu og þá er ótalin fjárhagsleg innspýting frá íslenskum gestum.
Í erindinu er vísað til rannsóknar Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) á hagrænum áhrifum erlendra tónleikagesta vegna Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar. Þar kemur fram að þegar peningaeyðsla erlendra ferðamanna er skoðuð komi í ljós að heildarútgjöld gestanna í Reykjavík nemi tæplega 30 þúsund krónum á dag.
„Ef þessar niðurstöður eru heimfærðar á gestafjölda ATP Iceland og lengd hátíðarinnar má gera ráð fyrir að heildarvelta erlendra gesta sé um 240 m.kr. á svæðinu og þá er ótalin fjárhagsleg innspýting frá íslenskum gestum. Afleidd áhrif tónlistarhátíða eru einnig mikil og fjölmargir aðilar njóta góðs af tilvist hátíðarinnar. Gistiaðilar (gisting á svæðinu var löngu uppseld þegar að hátíðinni kom), leigubílstjórar, matreiðslumenn, rútufyrirtæki, söfn, veitingastaðir, sundlaugar, og þannig mætti lengi telja, fá aukin viðskipti á meðan hátíðinni stendur.“ Að því er fram kemur í áðurnefndu erindi.
ATP á sér líklega ekki framtíð án fjárhagsstyrkja
Í erindinu er ekki farið fram á eina tiltekna styrkfjárhæð, en farið er fram á að bæjarráð Reykjanesbæjar styrki ATP Iceland fjárhagslega, til að halda lífi í tónlistarhátíð sem auki hróður bæjarfélagsins og stuðli að fjárhagslegri innspýtingu fyrir svæðið, eins og það er orðað í erindi forsvarsmanns ATO. Máli sínu til stuðnings benda forsvarsmenn ATP á að hátíðir á borð við tónlistarhátíðina njóti styrkja á sínum svæðum bæði frá viðkomandi sveitarfélögum og ríki. Í því sambandi er bent á að Iceland Airwaves fái tíu milljónir króna árlega frá Reykjavíkurborg og fimm milljónir frá menntamálaráðuneytinu, Listahátíð fái árlega 29 milljónir frá borginni og um 30 milljónir króna frá ríki, og tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður sé styrkt af Ísafjarðarbæ og fleiri sjóðum. Þá eru tónlistarhátíðirnar By:Larm í Noregi og Hróarskelduhátíðin einnig nefndar, sem fái tugi milljóna króna í styrki árlega frá sínum sveitarélögum og úr ríkissjóði.
Ég get nú með sanni sagt eftir tvær tilraunir að verkefnið er erfiðara og þyngra en bæði mig og ATP grunaði og að án fjárhagslegar aðstoðar er mjög líklegt að verkefnið falli um sjálft sig.
Í niðurlagi erindisins segir svo orðrétt: „Til að hátíðin geti haldið áfram þarf ATP Iceland á fjárhagslegri aðstoð bæjarfélagsins að halda líkt og aðrar sambærilegar hátíðir. Þegar lagt var af stað í verkefnið var talið að þess væri jafnvel ekki þörf. Ég get nú með sanni sagt eftir tvær tilraunir að verkefnið er erfiðara og þyngra en bæði mig og ATP grunaði og að án fjárhagslegar aðstoðar er mjög líklegt að verkefnið falli um sjálft sig.“
Þess ber að geta að Reykjanesbær hefur stutt við hátíðina með margvíslegum hætti til þessa, án þess að til beinna fjárframlaga hafi komið, svo sem með því að veita ýmsa þjónustu á tónleikasvæðinu við Ásbrú og annast hreinsunarstarf.