Tillaga sem samþykkt var í borgarstjórn í síðustu viku, þess efnis að borgin sniðgangi ísraelskar vörur, verður dregin til baka. Þetta segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við RÚV.
Tilögunni verður breytt þannig að skýrt komi fram að borgin muni aðeins sniðganga vörur sem eru framleidda á hernumdum svæðum. „Ég hef sagt að það hefði mátt vera miklu skýrar í textanum þótt að hugsunin hafi verið þar. Það er mikilvægt að koma þessu á framfæri. Ég mun leggja til við borgarráð að tillagan eins og hún liggur fyrir verði dregin til baka á meðan við höfum samráð um næstu skref og útfærslu,“ segir Dagur við RÚV.
Hann viðurkennir að málið hafi ekki verið nógu vel undirbúið. „Ég hef lagt í vana minn að undirbúa stórar ákvarðanir mjög vel og vandlega. Ég skal bara viðurkenna það að ég er sjálfum mér reiður yfir því að þarna tókst ekki til eins og ég hefði viljað. Því miður.“
Þá segir hann að viðbrögðin við tillögunni hafi komið á óvart, þótt hann hafi búist við að einhver viðbrögð yrðu. „Þetta eru mun meiri viðbrögð sýnist mér heldur en þegar Ísland lýsti yfir stuðningi við sjálfstæði Palestínu.“
Minnihlutinn í borginni hefur óskað eftir aukafundi í borgarstjórn í síðasta lagi á þriðjudag vegna málsins.