Reynir Traustason, fyrrum ritstjóri DV, segir að lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson hafi komist yfir eintak af bók hans eftir að Sigurður og vitorðsmenn hans hafi farið inn í tölvupósta fyrrum starfsmanna DV sem nú eru hættir. Slíkt sé lögbrot. Þetta kemur fram í facebook-færslu Reynis sem birtist fyrir skemmstu.
Í færslunni segir Reynir: „Sigurður G. Guðjónsson lögmaður er með uppkast að bók minni Afhjúpun sem sent var í einkapósti fyrir mistök á netföng tveggja samstarfsmanna minna á DV. Enginn vafi leikur á að handritið, sem hann birtir nú á Facebook kemur þaðan. Samstarfsmennirnir sem um ræðir eru hættir en greinilegt er að Sigurður og vitorðsmenn hans eru með aðgang að tölvupóstum þeirra. Lögmanninnum ætti að vera fulljóst að það er lögbrot að fara inn á netföng starfsmanna með þeim hætti sem þarna gerist. Nokkur netföng fyrrverandi starfsmanna eru enn opin. Fékk um það ábendingu fyrir nokkrum dögum að núverandi framkvæmdastjóri DV hefði sent út gögn sem fengin voru með þessum hætti. Nú liggur fyrir að Sigurður G. hefur komist í einkapóstana og birtir á Facebook-síðu sinni hugverk sem er stolið.
Ég er með staðfest að núverandi stjórnendur DV, ritstjóri og framkvæmdastjóri, hafa aðgang að umræddum póstum."