Rúmlega tvö hundruð íslenskir læknanemar á 4. til 6. ári hafa skrifað undir yfirlýsingu þess efnis að þeir muni ekki sækja um stöður kandídata eða aðstoðarlækna við heilbrigðisstofnanir landsins, fyrr en samningar nást milli ríkis og lækna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Kjarnanum barst í morgun frá forsvarsmönnum undirskriftasöfnunarinnar.
Læknanemar við læknadeild Háskóla Íslands munu afhenda Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, undirskriftarlistann við fjármálaráðuneytið klukkan 15:15 í dag. Ráðherra hefur fallist á að hitta læknanemana og veita nafnalistanum viðtöku. Allir læknar og læknanemar eru hvattir til að mæta af þessu tilefni, og því má búast við fjölda manns á staðinn.
Forsaga málsins
Grunnnám í læknisfræði er 6 ár. Að því loknu fara útskrifaðir læknar á kantídatsári til starfa á ýmsum sviðum hjá heilbrigðisstofnunum landsins í eitt ár til að öðlast lækningaleyfi hér á landi. Þá vinna margir læknanemar á 4. og 5. ári sem aðstoðarlæknar á Landspítalanum og öðrum heilbrigðisstofnunum yfir sumartímann og fá þá tímabundið lækningaleyfi.
Á aðalfundi Læknafélags Íslands, þann 25. september síðastliðinn, afhentu 6. árs læknanemar við læknadeild Háskóla Íslands Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra yfirlýsingu þess efnis að þeir myndu ekki sækja um stöður kandídata eða aðstoðarlækna við heilbrigðisstofnanir landsins fyrr en samningar næðust milli ríkis og lækna. Alls skrifuðu 42 læknanemar á lokaári undir yfirlýsinguna. Í kjölfarið söfnuðust undirskriftir hjá 4. og 5. árs læknanemum hér á landi og íslenskum læknanemum á 4.-6. ári í Danmörku og Ungverjalandi. Alls hafa safnast 200 undirskriftir sem læknanemar afhenda fjármálaráðherra í dag.
Hvaða áhrif munu aðgerðirnar hafa?
Læknakandídatar og læknanemar hafa mannað um 75 stöðugildi aðstoðarlækna yfir sumartímann á Landspítalanum seinustu ár, sem er um 40 prósent af öllum stöðugildum lækna sem ekki hafa sérfræðimenntun. Kandídatar og læknanemar sinna mikilvægu hlutverki á spítalanum og vinna þeir ekki einungis dagvinnu heldur einnig vaktavinnu á kvöldin og um helgar. Því er ljóst að þessar aðgerðir munu hafa mikil áhrif á daglega starfsemi spítalans ef til þeirra kemur. Að auki hafa um 50 læknanemar og kandídatar unnið á heilsugæslum og öðrum heilbrigðisstofnunum á sumrin og munu aðgerðirnar því hafa viðtæk áhrif um allt land.
„Ég vil taka það fram að þessi undirskriftarsöfnun fór fram áður en boðað var til verkfalls. Við gerum þetta til að styðja kjarabaráttu lækna en líka vegna þess að við treystum okkur einfaldlega ekki til að starfa sem læknar eins og staðan er í heilbrigðiskerfinu í dag,“ segir Daði Helgason, talsmaður 6. árs læknanema í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans.
Launin eru rót vandans, en fleira kemur til
„Launin eru rót vandans og þau skipta okkur auðvitað miklu máli. En vegna lágra launa og niðurskurðar seinustu ár hefur skapast ástand þar sem mannekla er mikil og álagið á þeim sem eftir eru er gífurlegt. Við þessar aðstæður gefst ekki mikill tími til að kenna og leiðbeina nemum og þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í starfi og af þessum ástæðum treystum við okkur ekki til að mæta til starfa,“ skrifar Daði Helgason.
„Við vonum auðvitað að samningar náist og að við getum mætt til starfa næsta sumar, því að við viljum leggja okkar að mörkum til að byggja heilbrigðiskerfið upp á nýjan leik, en miðað við hvað verkfallið hefur staðið yfir lengi og hljóðið í ráðamönnum er ég ekkert alltof bjartsýnn á framhaldið.“