Ríkasta eitt prósent jarðarbúa á um 48 prósent alls auðs í heiminum. Þessi litli hópur er auk þess að verða ríkari með hverju árinu. Fátækari helmingur jarðarbúa á hins vegar minna en eitt prósent alls auðs. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu svissneska bankans Credit Suisse um auð heimsins.
Samkvæmt skýrslunni er samanlagður auður heimsbyggðarinnar 263 trilljónir dala, um 28,6 milljónir milljarða íslenskra króna. Hann hefur tvöfaldast síðan árið 2000. Til að teljast með ríkari helming heimsins þarf hins vegar ekki að eiga mikið, alls um 3.650 dali, um 442 þúsund krónur, og er þá meðtalið virði fasteigna. Til að komast í efstu tíu prósentin þarf einstaklingur hins vegar að eiga meira en 77 prósent og yfir 798 þúsund dali, um 97 milljónir króna, til að tilheyra auðugasta efsta prósentinu. Flestir sem tilheyra ríkustu tíu prósentunum koma frá Bandaríkjunum. Japanir eru í öðru sæti og Kínverjar í því þriðja, á undan löndum eins og Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Bretlandi.
Auður heimsins orðin meiri en fyrir bankakreppu
Alls óx auður heimsbyggðarinnar um 20,1 trilljón dala á milli ára, um 2,4 milljónir milljarða króna, og er það mesti vöxtur sem mælst hefur síðan árið 2007. Auðurinn er nú um 20 prósent meiri en hann var þegar best lét fyrir alþjóðlegu bankakreppuna.
Ójöfnuður eykst hratt í flestur vanþróaðri ríkjum en innan G-7 ríkjanna, samstarfsvettvangs þróuðustu ríkja veraldar, jókst ójöfnuður einungis í Bretlandi á tímabilinu 2000 til 2014, samkvæmt skýrslu Credit Suisse.
Það eru hins vegar ekki allir sammála þessum staðhæfingum. The Guardian sagði til dæmis frá því nýverið að Oxfam-samtökin, sem berjast gegn fátækt í heiminum, hafi birt niðurstöður rannsókna sinna í byrjun þessa árs sem sýndu að 85 auðugustu eintaklingar heims eigi samtals um eina trilljón dala. Það er jafn mikið og fátækast 3,5 milljarður jarðarbúa.