Millitekjuskattþrepið verður afnumið í tveimur áföngum og horfið að fullu í árslok 2017. Neðri mörk efra þrepsins verða við 700 þúsund króna mánaðarlaun. Ríkissjóður verður af um 15 til 17 milljörðum króna vegna þessa í formi lægri skatttekna. Þessi breyting hefur verið kynnt, og sérstaklega til hennar horft, í þeim kjarasamningum sem VR, Flóabandalagið og Stéttarfélag Vesturlands eru að gera við Samtök atvinnurekenda. Breytingin mun auka ráðstöfunartekjur allra tekjuhópa en minnst þeirra sem fá lægstu launin, enda greiða þeir lægstu skattanna. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.
Þar segir að útspil ríkissjóðs hafi verið kynnt fyrir forystumönnum stéttarfélaganna á fundi hjá ríkissáttarsemjara í gær og að frekari kynning á aðgerðunum muni fara fram í dag. Þessar aðgerðir eiga að stuðla að kjarabótum fyrir milltekjuhópa, en í þeim samningsdrögum sem fyrir liggja er fyrst og fremst verið að einbeita sé að hækkun lægstu launa, sem hækka upp í 300 þúsund krónur í skrefum fram til 1. maí 2018. Ekki er búið að taka endanlega ákvörðun um hvernig prósentutölur verða í hvoru skattþrepi fyrir sig. Taki verkalýðsfélögin vel í aðgerðirnar er búist við því að skrifað verði undir nýja kjarasamninga í dag eða á morgun.
Í dag eru þrjú tekjuskattþrep og greiða launþegar 22,86 prósenta tekjuskatt af tekjum undir 309.140 krónum á mánuði, 25,3 prósent af tekjum frá þeirri upphæð að 836.404 krónum og 31,8 prósent af tekjum yfir 836.405.