Framlag ríkisins til VIRK endurhæfingarsjóðsins verður óbreytt á þessu ári, 200 milljónir króna. Á næsta ári verður framlag ríkisins 650 milljónir króna og árið 2017 verður það 0,06 prósent af gjaldstofni tryggingagjalds. Gert er ráð fyrir að sú upphæð verði 740 milljónir króna.
Þetta kemur fram í samkomulagi milli fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra annars vegar og VIRK starfsendurhæfingarsjóðs hins vegar. Samkomulagið var undirritað í dag og tryggir að allir sem þurfa á því að halda fá atvinnutengda starfsendurhæfingu til þess að verða virkir á vinnumarkaði á ný.
Ætluðu að hafna skjólstæðingum ríkisins ef ekki semdist
Virk er starfsendurhæfingarsjóður sem stofnaður var af Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) og Samtökum atvinnulífsins (SA) í maí 2008. Síðan þá hafa atvinnurekendur og lífeyrissjóðir greitt hlutfall af stofni iðgjalds til sjóðsins til að standa undir rekstri hans og starfsendurhæfingu þeirra sem eru virkir á atvinnumarkaði. Ríkið átti síðan, samkvæmt lögum sem samþykkt voru árið 2012 og samningum sem voru gerðir þegar VIRK var sett á fót, að greiða framlag til sjóðsins. Það framlag átti meðal annars að fjármagna starfsendurhæfingu þeirra einstaklinga sem eru atvinnulausir, þiggja örorkulífeyri eða eru skjólstæðingar félagsmálastofnana. Það hefur ekki verið gert eins og samið var um.
VIRK greindi frá því í desember 2014 að sjóðurinn myndi ekki taka við einstaklingum sem standa utan vinnumarkaðar, sem eru örorkulífeyrisþegar eða skjólstæðingar félagsmálastofnana á árinu 2015 ef framlag ríkisins til sjóðsins yrði ekki hækkað. Í framhaldi af því svaraði Eygló Harðardóttir því til að ef VIRK myndi ekki falla frá þeirri ákvörðun sinni að hafna 200 milljóna króna framlagi ríkisins „verði allt kapp lagt á að tryggja fólki þá þjónustu sem það þarf hjá VIRK eða eftir öðrum leiðum“. Þjónustan var því í hnút í nokkurn tíma og viðræður hafa staðið yfir um lausn deilunnar.