Miðað við verðlag í júlí síðastliðnum er útlit fyrir að kostnaður ríkisins vegna lagningu Borgarlínu samkvæmt samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðisins verði 51,7 milljarðar króna, samkvæmt skriflegu svari Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Miðflokksins.
Sigmundur Davíð lagði fram þinglega fyrirspurn um það hversu stóran hluta heildarkostnaðar vegna „svokallaðrar borgarlínu“ ríkið myndi greiða þegar öllum áföngum verkefnisins yrði lokið og fékk það svar frá ráðuneyti Bjarna Benediktssonar að stofnkostnaður við þau verkefnið sem ríkið og sveitarfélög hefðu sammælst um að fjármagna varðandi Borgarlínuna hefði á verðlagi ársins 2019 verið áætlaður 49,6 milljarðar króna.
Með gerð samgöngusáttmálans var einnig ákveðið að setja 52,2 milljarða króna í stofnvegaframkvæmdir, 8,2 milljarða í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarða í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir. Alls fjallaði heildaráætlunin um 120 milljarða króna fjárfestingu í bættum samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu fram til ársins 2033.
Í skriflegu svari fjármála- og efnahagsráðherra segir að samkvæmt fjármögnunarfyrirkomulagi aðila sem kynnt var árið 2019 muni hlutur ríkisins verða 87,5 prósent af stofnkostnaði við framkvæmd sáttmálans, þar með talið Borgarlínuna.
„Næmi því hlutur ríkisins í þeirri framkvæmd um 43.400 millj. kr. á verðlagi ársins 2019. Það samsvarar liðlega 51.700 millj. kr. á verðlagi í júlí 2022 miðað við byggingarvísitölu,“ segir í svari ráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs.
Þegar fjármögnun samgöngusáttmálans var kynnt var boðað að ríkið myndi leggja 45 milljarða til, sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins 15 milljarða og að svo yrðu 60 milljarðar fjármagnaðir sérstaklega, meðal annars með sölu Keldnalandsins og gjöldum á umferð á höfuðborgarsvæðinu.
Ekki er þó búið að útfæra slíkar hugmyndir, en þær eru á hendi ríkisins og telja því inn í framlag ríkisins til samgöngusáttmálans.
Borgarlína byggist upp í áföngum næsta rúma áratuginn
Fyrsta lota Borgarlínu er í hönnunarferli, en í þeirri lotu á að leggja borgarlínuleið frá Ártúnhöfða niður í miðborg Reykjavíkurborgar og þaðan í gegnum Vatnsmýri, yfir nýja brú yfir á Kárnes og upp að Hamraborg í Kópavogi.
Fyrr í sumar voru tímaáætlanir verksins endurskoðaðaðar, og nú miða áætlanir við að framkvæmdalok fyrstu lotu verkefnisins verði tvískipt og ljúki á árunum 2026 og 2027.
Er skýrsla með frumdrögum fyrstu lotunnar var kynnt í upphafi síðasta árs var reiknað með því að hægt yrði að taka fyrstu borgarlínuleiðirnar í notkun árið 2025, samhliða heildstæðri innleiðingu nýs leiðanets Strætó. Áður hafði verið svo jafnvel verið rætt um að fyrsta lotan gæti verið tekin í notkun árið fyrir árslok 2024. Tímalínunni hefur því seinkað nokkuð frá því sem lagt var upp með.