Atvinnuvegaráðuneytið hækkaði magntolla á innfluttar búvörur um að meðaltali 7,38 prósent fyrir næsta innflutningstímabil. Hagsmunasamtök segja tollalöggjöfina gallaða og fráleita því hún kemur í veg fyrir að lækkað innflutningsverð skili sér í lækkuðu verðlagi til neytenda. Hækkaðir tollar muni að öllum líkindum þýða verðhækkun til neytenda.
Ríkinu er skylt að hleypa skilgreindu magni af neysluvörum til landsins án þess að leggja á þá vörutolla. Um þennan kvóta þarf að sækja til að geta flutt inn búvörur undanþegnar vörutollum, á borð við nautakjöt, svínakjöt, kinda- og geitakjöt, afurðir alifugla og mjólkurvörur, samkvæmt samningum Íslands við Alþjóðaviðskiptastofnunina.
„Innflutningurinn er þó ekki tollfrjáls, heldur leggja stjórnvöld á hann magntoll, fasta krónutölu á hvert kíló innfluttrar vöru,“ segir í frétt á vef Félags atvinnurekenda. Þar er Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri. Í fréttinni er haft eftir honum að þetta kerfi æpi á endurskoðun.
„Á tíma þegar allir ættu að leggjast á eitt að halda verðhækkunum i skefjum til að auka kaupmátt og tryggja ávinning nýgerðra kjarasamninga hækkar ríkið álögur á innfluttar búvörur,“ er haft eftir Ólafi. „Það er ekki nóg með að matartollar séu undanskildir í áformum stjórnvalda um niðurfellingu tolla, þeir eru beinlínis hækkaðir.“
Þarna vísar Ólafur í orð Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, um að ráðgert er að fella niður innfluttningstolla á allan varning, utan matvöru, 1. janúar 2017.
Landbúnaðarráðherra er gert kleift í tollalögum að úthluta tollkvótum. Magntollurinn er áætlaður með því að finna mismun ríkjandi heildsöluverðs, „samkvæmt upplýsingum fengnum frá a.m.k. tveimur leiðandi ótengdum dreifingaraðilum“, og innflutningsverðs samkvæmt meðaltali tollverðs.