Íslenska ríkið hefur enn ekki samið við íslensku viðskiptabankana þrjá um aðferðarfræðina sem beita á við útreikninga á virði þeirra húsnæðislána sem á að höfuðstólslækka samkvæmt leiðréttingaáformum ríkisstjórnarinnar. Þetta hefur Kjarninn staðfest innan úr bönkunum. Þrátt fyrir það stendur til að kynna opinberlega niðurstöðu leiðréttingarinnar næstkomandi mánudag, 10. nóvember, og umsækjendur eiga að geta séð hvað þeir fá í sinn hlut daginn eftir, 11. nóvember.
Samkvæmt upplýsingum frá Tryggva Þór Herbertssyni, verkefnastjóra leiðréttingarinnar, þarf samkomulag við viðskiptabankana ekki að liggja fyrir fyrr en 31. desember næstkomandi. Því er hægt að tilkynna fólki um hvað það á að fá á þriðjudag þótt enn eigi eftir að semja við bankana.
Upphaflega átti að tilkynna um niðurstöður leiðréttingarinnar um miðjan október. Tryggvi Þór sagði í samtali við Kjarnann í byrjun síðasta mánaðar að þá myndu 95 prósent þeirra sem sóttu um höfuðstólslækkun verðtryggðra lána fá að vita hvort og þá hversu mikið þeir fá. Það hefur síðan frestast nokkrum sinnum og nú hefur verið gefin út lokadagsetning, þriðjudagurinn 11. nóvember.
Ekki tilkynnt sem ríkisaðstoð
Í mars á þessu ári upplýstu íslensk stjórnvöld Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um skuldaleiðréttingaráform sín. Ástæðan er sú að að samkvæmt samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið (EES) þarf að tilkynna um alla aðstoð hins opinbera sem gæti flokkast sem ríkisaðstoð til eftirlitsins.
Samkvæmt Andreas Kjeldsberg Pihl, upplýsingafulltrúa ESA, voru þær upplýsingar sem stofnuninni voru veittar þá ekki nægjanlegar til þess að hún geti ákvarðað hvort aðgerðirnar teljist ríkisaðstoð eða ekki. Það sé íslenskra stjórnvalda að tilkynna formlega til ESA ef aðgerðin mun flokkast sem ríkisaðstoð. Slík formleg tilkynning hefur ekki borist. ESA fylgist hins vegar með framvindu málsins.
Bankarnir gætu „hagnast“ á skuldaleiðréttingunni
Ástæða þess að ESA gerir það er sú að mjög mismunandi er hvort lánveitendur séu að hagnast niðurgreiðslu ríkissjóðs á höfuðstóli húsnæðislána. Í lögum um lækkum höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána sem samþykkt voru í maí síðastliðnum segir að miða skuli við „að hvorki skapist hagnaður né tap hjá samningsaðila vegna greiðslu ríkissjóðs á leiðréttingahluta láns“.
Þar sem ekki liggur fyrir samkomulag við íslensku viðskiptabankana um aðferðarfræðina sem beita á við útreikninga á virði þeirra húsnæðislána sem á að höfuðstólslækka samkvæmt leiðréttingaáformum ríkisstjórnarinnar er ekki ljóst hvort það markmið hafi náðst.
Viðræðurnar snúast um að viðskiptabankarnir fái ekki meira til baka af sumum lánum sínum vegna leiðréttingarinnar en þeir gátu vænst ef hún hefði ekki orðið að veruleika..
Viðræðurnar snúast um að viðskiptabankarnir fái ekki meira til baka af sumum lánum sínum vegna leiðréttingarinnar en þeir gátu vænst ef hún hefði ekki orðið að veruleika. Þeir eiga ekki að„hagnast“ á framkvæmdinni. Sumir lífeyrissjóðir sem eru á fyrsta veðrétti á lánum til sjóðsfélaga sína telja sig sömuleiðis geta „tapað“ hins á því að fá þau uppgreidd, þar sem þeim standa ekki til boða sambærilegir fjárfestingamöguleikar fyrir það fé sem þeir fá í staðinn. Viðræðurnar eiga að tryggja að svo verði ekki.
Samningsviðræður þeirra sem sjá um leiðréttingaráformin við Landsbankann, Íslandsbanka og Arion banka standa enn yfir og unnið er að útreikningum með það fyrir augum að lausn náist.
Leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána snýst um að ríkissjóður greiðir um 72 milljarða króna í niðurfærslur á verðtryggðum húsnæðislánum. Til þess að eiga möguleika á leiðréttingu þurfti fólk að sækja um og rann umsóknarfrestur út 1. september síðastliðinn. Alls bárust um 69 þúsund umsóknir áður en fresturinn rann út. Á bakvið þær standa um 105 þúsund manns. Verði allar umsóknirnar samþykktar mun hver og einn fá rúmlega eina milljón króna í sinn hlut að meðaltali.
Viðbót klukkan 17:30:
Fyrir mistök var því haldið fram í fréttinni að viðræður við viðskiptabanka snúist um að þeir geti hagnast á leiðréttingunni og að lífeyrissjóðir gætu tapað á henni. Þar átti vitaskuld að standa að viðræðurnar snúist um að bankarnir hagnist ekki og að lífeyrissjóðirnir tapi ekki. Þetta hefur verið leiðrétt í textanum.