Íslenska ríkið er búið að undirrita samning um kaup á svonefndu Norðurhúsi við Austurbakka, en um er að ræða tæplega 6 þúsund fermetra hluta af húsinu sem Landsbankinn hefur verið að byggja undir nýjar höfuðstöðvar sínar við Austurhöfn. Frá þessu er sagt í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Kaupverðið er um 6 milljarðar króna fyrir fullfrágengið húsnæði, og verður það keypt fyrir sérstaka viðbótararðgreiðslu frá Landsbankanum til ríkissjóðs, sem þegar hefur verið innt af hendi.
Utanríkisráðuneytið og Listasafn Íslands í húsið
„Fyrirhugað er að starfsemi utanríkisráðuneytisins verði komið fyrir í byggingunni, ásamt því að nýta hluta hennar undir sýningar- og menningartengda starfsemi á vegum Listasafns Íslands og er þá einkanlega horft til samtímalistar,“ segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Í henni segir einnig að húsnæðiskostur Stjórnarráðsins sé háður miklum annmörkum og að húsnæði ráðuneytanna sé sundurleitt, á mörgum stöðum og í mörgum tilfellum úrelt.
„Fyrir liggur að utanríkisráðuneytið mun næsta haust missa stóran hluta húsnæðis síns sem það hefur haft á leigu. Með flutningi utanríkisráðuneytisins í Norðurhús Austurbakka verður starfseminni komið fyrir á einum stað í sveigjanlegu og nútímalegu húsnæði sem verður nýtt með hagkvæmum hætti,“ segir í tilkynningu ráðuneytanna.
Var hitamál í ríkisstjórninni
Kjarninn sagði frá því í júlímánuði að tillaga hefði verið lögð fram á ríkisstjórnarfundum um að kaupa hluta hússins á sex milljarða króna í sumar, en að andstaða hefði verið við kaupin á meðal einhverra ráðherra, þar sem kaupverðið þætti ekki forsvaranlegt á sama tíma og ríkissjóður boðaði aðhaldsaðgerðir.
Heimildir Kjarnans hermdu að þetta hefði verið mikið hitamál innan ríkisstjórnarinnar, og að aðrir ráðherrar hefðu sótt það fast að húsið yrði keypt undir starfsemi þeirra ráðuneyta, en það voru þær Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla-, nýsköpunar og iðnaðar.
Einungis utanríkisráðuneytið mun hins vegar verða fært í húsakynnin við Austurhöfn, sem áður segir.
Uppstokkunin á húsnæði stjórnarráðsins á rætur sínar að rekja til þess að sitjandi ríkisstjórn ákvað að fjölga ráðherrum um tvo þegar Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur endurnýjuðu stjórnarsamstarf sitt í fyrrahaust. Þá þurfti að koma fleiri ráðuneytum fyrir.
Samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn á Alþingi fyrr á þessu ári var áætlað að breytt skipan ráðuneyta gæti kostað ríkissjóð allt að 1,77 milljörðum króna á þessu kjörtímabili. Kostnaðurinn færi aðallega í fjölgun starfa sem fylgi breyttu skipulagi, þar á meðal ritara, bílstjóra og aðstoðarmanna nýrra ráðherra. Þar var því ekki tekið inn í dæmið mögulegur viðbótarhúsnæðiskostnaður.
Ætla einnig að kaupa gamla Landsbankahúsið
Einnig er greint frá því í tilkynningu stjórnvalda að ákveðið hafi verið að ganga til samninga um kaup á gamla Landsbankahúsinu við Austurstræti.
„Sú bygging er eitt af helstu kennileitum borgarinnar og menningarsögulega verðmæt sem slík. Það telst því álitlegur kostur að byggingunni verði fundið verðugt hlutverk í íslensku samfélagi, t.a.m. undir starfsemi dómstóla en endurskipuleggja þarf húsnæðismál þeirra til lengri tíma,“ segir í tilkynningu stjórnvalda.