Þrír einstaklingar, sem kærðu ákvörðun ríkisins um að skikka þá í sóttkví í sóttvarnarhúsi, hefðu mátt fara í sóttkví heima hjá sér, samkvæmt úrskurði Héraðsdóms sem kveðinn var upp fyrr í dag. Frá þessu greindi RÚV fyrst.
Samkvæmt fréttinni voru kærurnar lagðar fram á þeim grundvelli að um ólöglega frelsissviptingu væri að ræða. Samkvæmt Ómari Valdimarssyni, lögmanni sem rak eitt málanna, er reglugerð stjórnvalda um skyldudvöl komufarþega frá áhættusvæðum á sóttvarnarhúsum ónýt.
Ómar sagði þó að úrskurðirnir sem kveðnir voru upp fyrr í dag séu bundnir við þá einstaklinga sem sóttu málin og gildi ekki endilega fyrir alla.
Kjarninn hefur áður fjallað um málið, en alls lögðu fimm fram kæru til ríkisins vegna skyldudvalarinnar. Allir eiga þeir heimili hér á landi. Ómar, ásamt Jóni Magnússyni, öðrum lögmanni kæranda, hafa sagt að málin gætu haft fordæmisgildi fyrir aðra sem dvelja í sóttvarnarhúsi. Í viðtali við RÚV fyrr í dag ítrekaði Ómar að þetta kunni að hafa fordæmisgildi fyrir aðra, en vildi þó ekki fullyrða það með óyggjandi hætti.