Ríkisstjórnin ætlar að selja 65 prósent eignarhlut sinn í Íslandsbanka að fullu á næstu tveimur árum. Til stendur að selja um helming útistandandi hlutar ríkisins sumarið 2022 og ríkið reiknar með að fá um 75 milljarða króna fyrir hann, samkvæmt því sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Það sem eftir stæði yrði svo selt 2023 ef markaðsaðstæður yrðu ákjósanlegar.
Ríkissjóður seldi 35 prósent hlut í bankanum í sumar fyrir 55,3 milljarða króna. Markaðsvirði þess hlutar er í dag 86,5 milljarðar króna. Hann hefur því hækkað um 31,2 milljarða króna á nokkrum mánuðum. Sú hækkun lendir hjá nýjum eigendum hlutarins.
Á móti fékk ríkið markaðsvirði á eign sína í bankanum, sem var skráður á markað samhliða sölunni í sumar. Nú er 65 prósent hlutur ríkissjóðs metinn á um 161 milljarð króna.
Í fjárlagafrumvarpinu segir að fyrirhuguð frekari sala á árinu 2022 sé mikilvægur þáttur í virkri stýringu á efnahag ríkisins. „Með sölunni er hægt að auka sjóðstreymi til ríkisins, minnka lánsfjárþörf og auka rými til fjárfestinga í samfélagslega arðbærum verkefnum þrátt fyrir hallarekstur.“
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, sem kynntur var á sunnudag, segir að á kjörtímabilinu verði eignarhlutir í bönkum seldir. Þar er ekki tilgreint í hvaða bönkum.
Í fjárlagafrumvarpinu er einnig til staðar heimild til að selja allt að 30 prósent hlut í Landsbankanum, sem ríkið á að nær öllu leyti í dag. Hann er stærsti banki landsins.
Hækkað meira en aðrir bankar á Norðurlöndum
Markaðsvirði Íslandsbanka við lokun markaða í gær var 247,2 milljarðar króna. Frá því að 35 prósent hlutur í bankanum var seldur í júní síðastliðnum hefur hlutabréfaverðið hækkað um 56 prósent, farið úr 79 krónum á hlut í 123 krónur á hlut. Það er mesta hækkun á virði bréfa í banka á Norðurlöndunum á því tímabili sem liðið er frá því að hlutafjárútboðið í Íslandsbanka fór fram.
Hreinar þóknanatekjur bankans á fyrstu níu mánuðum ársins jukust um 20,1 prósent frá sama tímabili í fyrra og vaxtatekjur hans hækkuðu um 1,1 prósent, en þær voru 25,4 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins.
Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði úr 55,3 í 46,6 prósent milli ára en stjórnarkostnaður hækkaði, aðallega í tengslum við skráningu Íslandsbanka á markað, aukins launakostnaðar vegna kjarasamningshækkana og kostnaðar vegna uppsagna.
Um sjö þúsund hafa þegar selt
Í fjárfestakynningu vegna síðasta birta uppgjörs Íslandsbanka kom fram að hluthafar í Íslandsbanka hefðu verið yfir 17 þúsund talsins í lok september. Eftir útboðið í sumar voru hluthafarnir um 24 þúsund talsins. Það þýðir að um sjö þúsund hafa þegar selt hlut sinn í Íslandsbanka á þeim tíma sem liðin er frá hlutafjárútboðinu.
Sá háttur var hafður á í útboðinu að allir sem skráðu sig fyrir einni milljón króna eða minna myndu ekki skerðast ef eftirspurn yrði umfram framboð. Þetta var gert til að draga sem flesta að þátttöku. Eftirspurnin reyndist níföld.
Hlutabréf í bankanum hækkuðu um 20 prósent strax á fyrsta degi eftir skráningu á markað og hafa síðan hækkað jafnt og þétt.
Sá sem keypti hlut í Íslandsbanka af íslenska ríkinu á eina milljón króna í júní gæti selt þann hlut í dag á tæplega 1,6 milljónir króna, og þar með hagnast um 560 þúsund krónur á nokkrum mánuðum.