Ríkið skipaði í 191 nýjar nefndir, ráð og stjórnir í fyrra, samkvæmt nýrri skýrslu frá Jafnréttisráði. Af þessum 191 voru 76%, eða 146, í samræmi við jafnréttislög. 54 nefndir, eða 24%, voru það ekki.
Innanríkisráðuneytið skar sig úr og aðeins 53% nefnda sem skipaðar voru þar í fyrra voru í samræmi við fimmtándu grein jafnréttislaganna. Nefndir á vegum ráðuneytisins hafa verið talsvert til umfjöllunar undanfarið eftir að í ljós kom að dómnefnd sem fjallar um hæfi umsækjenda um dómaraembætti er eingöngu skipuð körlum, og þeir aðilar sem skipa fulltrúa í nefndina telja sig vera undanþegna jafnréttislögum.
Hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu var hlutfall nefnda í samræmi við lög 62%, þrettán nefndir voru skipaðar og þar af voru átta í samræmi við jafnréttislögin.
Forsætisráðuneytið skipaði í tíu nefndir, og sjö þeirra eða 70% voru í samræmi við jafnréttislögin. Fjármálaráðuneytið skipaði 21 nefnd og 71% voru í samræmi við lögin, eða 15 nefndir.
Á vegum menntamálaráðuneytisins voru skipaðar 41 nefnd, ráð og stjórnir í fyrra, og 78 prósent þeirra eða 32 voru í samræmi við lögin. Hjá atvinnuvegaráðuneytinu var hlutfallið 83%, 25 af þeim 30 nefndum sem voru skipaðar voru í samræmi við lög.
95% nefnda velferðarráðuneytisins uppfylltu jafnréttislögin, en tvær af 41 nefnd sem þar var skipuð var ekki í samræmi við lögin. Utanríkisráðuneytið skipaði aðeins þrjár nefndir í fyrra og allar uppfylltu þær jafnréttislögin.
Jafnréttisstofa bendir á það í sinni skýrslu að í sumum tilfellum séu nefndir skipaðar á grundvelli laga sem tilgreina hvaða embættismenn eigi að vera í þeim, og slíku sé ekki hægt að hrófla við nema með lagabreytingum. Það á hins vegar ekki við um dómnefndina á vegum innanríkisráðuneytisins, sem áður var nefnd. Í niðurstöðum Jafnréttisstofu er sérstaklega tekið fram að það séu ýmsar ástæður sem teljist hlutlægar og málefnalegar þegar komi að því að beita undanþáguheimild frá því að tilnefna eigi bæði karl og konu í nefndir. „Jafnréttisstofa hefur tekið til greina þætti eins og reynslu og sérþekkingu starfsfólks. Aðrar ástæður svo sem að tilnefningaraðili vilji ekki tilnefna nema einn eru ekki hlutlægar ástæður sem falla undir undanþáguheimildina.“