Ekki er ljóst hver næstu skref verða í kjaradeilum hjúkrunarfræðinga og íslenska ríkisins, eftir að hjúkrunarfræðingar kolfelldu nýjan kjarasamning við ríkið með nærri 90 prósent atkvæða. Atkvæðagreiðslunni lauk á hádegi í dag. Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh), segir í samtali við Kjarnann að það sé vilji félagsins að setjast aftur að samningaborðinu. Ríkið vilji aftur á móti fara með deilurnar fyrir gerðardóm, eins og ákveðið var með lögum áður en Fíh skrifaði undir samninga, sem nú hafa verið felldir.
Ólafur segir að hann hafi í kjölfar niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar sett sig í samband við samninganefnd ríkisins og spurt um næstu skref.
Hann segir ennfremur að félagið muni leita réttar síns ef þörf krefur. Spurður hvort niðurstaða í máli BHM gegn ríkinu, um meint ólögmæti lögbanns á verkfallsaðgerðir félaga BHM, geti haft fordæmisgildi fyrir Félag hjúkrunarfræðinga, segir hann að það sé ekki víst. Margt sé ólíkt, til dæmis hafi verkfall hjúkrunarfræðinga varið styttra og að allar undanþágur hafi verið nýttar. Niðurstaða í dómsmáli BHM gegn ríkinu liggur fyrir í dag.
„Ég bjóst ekki við svona svakalega afgerandi niðurstöðu en það kemur mér alls ekki á óvart að samningarnir voru felldir,“ segir Ólafur, spurður hvort afgerandi niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hafi komið honum á óvart. Eftir því sem leið frá undirskrift kjarasamninganna hafi það orðið æ ljósara að félagsmenn hyggðust fella þá.
Atkvæðagreiðslu lauk á hádegi í dag. Samningurinn var felldur með 1677 atkvæðum á móti 219, eða 88,4 prósentum gegn 11,6 prósentum. Kjörsókn var 84,8 prósent.
„Í kjölfar lagasetningar Alþingis, sem batt enda verkfallsaðgerðir hjúkrunarfræðinga, var það sameiginleg ákvörðun samninganefndar Fíh, trúnaðarmannaráðs og framkvæmdaráðs stjórnar félagsins að rétt væri að gefa hjúkrunarfræðingum tækifæri til að kjósa um tilboð ríkisins sem þá lá fyrir. Enda taldi samninganefnd Fíh að gerðardómi, sem Alþingi fól að ákvarða laun hjúkrunarfræðina, væru settar afar þröngar skorður,“ segir í tilkynningu frá hjúkrunarfræðingum til fjölmiðla í dag.
„Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar undirstrikar stuðning hjúkrunarfræðinga við áherslur samninganefndar félagsins um að stjórnvöld verði að bregðast við sanngjörnum kröfum þeirra um að grunnlaun hjúkrunarfræðinga verði sambærileg við aðrar háskólamenntaðar stéttir og markvisst verði dregið úr kynbundnum launamun. Fréttir af uppsögnum hjúkrunarfræðinga á síðustu vikum endurspegla afstöðu þeirra til tilboðs ríkisins en ómögulegt er að reka öflugt og öruggt heilbrigðiskerfi án þátttöku vel menntaðra hjúkrunarfræðinga.“