Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbanka Íslands, fær að meðaltali 700 þúsund krónur greiddar fyrir að sinna því starfi. Fundað er að jafnaði einu sinni í mánuði auk þess sem starfið felur í sér setu í undirnefnd ráðsins Hann og Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, varaformaður bankaráðsins, fengu samtals greitt 14,7 milljónir króna fyrir setu í bankaráði Landsbankans, sem er að nær öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Alls námu greiðslur til bankaráðsmanna fyrir setu í ráðinu á síðasta ári um 42 milljónum króna. Frá þessu er greint í DV í dag.
Bankaráðsmennirnir ráða sjálfir hvað þeir fá í laun að fenginni tillögu starfskjaranefndar Landsbankans.
Nærri tvöföld regluleg laun
Til að setja launagreiðslur bankaráðsins í samhengi má geta þess að regluleg meðallaun fólks á vinnumarkaði árið 2013 voru 436 þúsund krónur á mánuði, eða rúm 60 prósent af launum Tryggva fyrir formennsku í bankaráðinu. Það sama ár voru meðallaun í Seðlabankanum, þar sem Tryggvi starfaði fram til ársins 2011, 692 þúsund krónur á mánuði.
Í Arion banka fékk Monica Caneman, stjórnarformaður bankas, 19,9 milljónir króna í greiðslur í fyrra og Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, fékk 7,5 milljónir króna. Báðir þeir bankar eru hins vegar að meirihluta í eigu kröfuhafa gjaldþrota forvera þeirra þótt ríkið eigi hlut í þeim báðum.