Ríkisendurskoðun er fáliðuð og hefur ekki tök á því að skoða alla liði ríkisreiknings árlega. Samkvæmt lögum er meginverkefni Ríkisendurskoðunar að endurskoða ríkisreikning. Ríkisendurskoðun getur því ekki sinnt lögboðnu hlutverki sínu miðað við þann stakk sem henni er sniðin í dag.
Þetta kemur fram í skýrslunni „Endurskoðun ríkisreiknings 2013“ sem birt var á vef Ríkisendurskoðunar í dag.
Óviðunandi ástand
Í skýrslunni segir að „á undanförnum árum hefur áætlun Ríkisendurskoðunar miðað að því að endurskoða útgjaldamestu fjárlagaliðina til að meta réttmæti upplýsinga um útgjöld í ríkisreikningi. Á yfirstandandi ári var áherslum breytt á þann veg að fjárlagaliðir sem ekki höfðu verið endurskoðaðir í þrjú ár fengu meira vægi í endurskoðunaráætlun ársins. Ríkisendurskoðun er fáliðuð og hefur ekki tök á að endurskoða alla liði árlega. Þetta er að mati stofnunarinnar óviðunandi ástand og nauðsynlegt að henni verði gert kleift að sinna sínu lögboðna hlutverki að endurskoða alla fjárlagaliði ríkisins meðreglubundnari hætti en nú er mögulegt“.
Þetta er að mati stofnunarinnar óviðunandi ástand og nauðsynlegt að henni verði gert kleift að sinna sínu lögboðna hlutverki að endurskoða alla fjárlagaliði ríkisins meðreglubundnari hætti en nú er mögulegt“
Í skýrslunni tók Ríkisendurskoðun saman helstu athugasemdir og ábendingar sem hún fann við endurskoðun þeirra liða ríkisreiknings sem hún náði að skoða vegna ársins 2013. Á meðal þeirra var að uppgjöri ríkisreiknings þurfi að breyta til samræmis við viðurkenndar reikningsskilareglur, að fjármála- og efnahagsráðuneyti beiti sér fyrir úttekt á tölvukerfum, að fjársýsla ríkisins greini og leiðrétti viðskiptakröfur og að aðgerða sé þörf til að bregðast við tryggingafræðilegri stöðu A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem er neikvæð um mörg hundruð milljarða króna.
Þá vill Ríkisendurskoðun að stofnanir hins opinbera ljúki við gerð eignaskráa, að framsetning markaðra tekja í fjárlögum og ríkisreikningi verði endurskoðuð, að Alþingi kanni möguleika á því að setja lög um skattstyrki, að áætluð gjöld verði sérgreind í tekjubókhaldi ríkisins og að umfjöllun um áhættu ríkisstjóðs verði birt í skýringum með ríkisreikningi.